
Helsta samgönguæðin í Langanesbyggð nær ófær
Um er að ræða ríflega 40 kílómetra langan stofnveg frá Þórshöfn um Brekknaheiði og Langanesströnd austur til Bakkafjarðar. Stærsti hlutinn er malarvegur. Árið 2006, þegar Langanesbyggð var mynduð, var nýr vegur talin ein af forsendum sameiningar. Hann er enn nánast óbreyttur.
Bílar verða fyrir tjóni á leiðinni
Elías Pétursson, sveitarstjóri, segir veginn nánast ófæran eins og hann er núna. „Það er þannig að maður læðist hann á þokkalega útbúnum bílum og menn verða fyrir tjóni á þessari leið," segir hann. Núna sé Vegagerðin að undirbúa það að bera ofan í veginn, en það endist bara í stuttan tíma. „Það er verið að hefla þennan veg kannski einu sinni yfir sumarið, sem er algerlega fáránlegt, svo maður noti þokkalega sterk orð."
Íbúar á Bakkafirði hættir að keyra til Þórshafnar
Elías segir að leiðin sé afar mikilvæg tenging í Langanesbyggð því að fólk sækir alla þjónustu til Þórshafnar. „Og fólkið á Bakkafirði, eðlilega, sækir orðið þjónustu á Vopnafjörð frekar en að koma hingað út af því hvernig vegurinn er."
Ráðamönnum fullkunnugt um ástandið
Og þingmönnum og öðrum viðeigandi ráðamönnum sé fullkunnugt um ástandið á veginum. „Síðast, til dæmis, þegar þingmenn kjördæmisins komu hingað í heimsókn í aðdraganda fjárlega gerðar, þá notuðum við held ég allan tímann sem sá fundur var í það að tala um þennan veg," segir Elías