Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Helmingi færri refapör með yrðlinga

11.07.2019 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - Facebook
Á Hornströndum eru helmingi færri refapör með yrðlinga en venjan er og óðul þeirra allt að tvöfalt stærri en áður. Umferð ferðamanna um svæðið veldur refum talsverðri truflun, einkum þegar læður eru enn mjólkandi og bundnar við greni.

Náttúrufræðistofnun, í samstarfi við Melrakkasetur Íslands, fór í árlega vettvangsferð um Hornstrandir 17.-30. júní og stýrði Ester Rut Unnsteinsdóttir leiðangrinum sem styrktur var af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - Facebook
Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands sem fóru á Hornstrandir.

Farið var á öll þekkt greni í Hornvík, Hornbjargi, Hvannadal, Rekavík bak Höfn, Hlöðuvík og Hælavík. Kannað var með ábúð og umferð dýra, fæðuleifar við grenin voru skráðar og saursýnum var safnað til varðveislu og síðari rannsókna. Ástand refa á svæðinu er gott að mati stofnunarinnar þrátt fyrir færri fjölda refapara með yrðlinga.

Þrjú refagreni voru vöktuð í 12 klukkustundir á dag í fimm daga til að meta tíðni og dvalartíma fullorðinna dýra við greni og fæðugjafir til yrðlinga, ef þeir væru til staðar. Fjöldi og hegðun ferðamanna sem áttu leið um óðul dýranna metin.

Á Facebook-síðu Náttúrufræðistofnunar segir að í upphafi leiðangursins hafi fjöldi ferðamanna ekki verið mikill en jókst eftir því sem leið á. Gera megi ráð fyrir að friðlandið verði mikið sótt af ferðamönnum í ár, líkt og verið hefur. Stofnunin vonast til þess að fólk fari að ráðleggingum landvarða, haldi sig á stígum og trufli ekki dýralífið á svæðinu. Farið verður í annan leiðangur á Hornstrandir síðar í sumar til að kanna ástand refastofnsins.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar veittu aðstoð við bjargfuglatalningar í Hvannadal sem Náttúrustofa Vestfjarða stóð fyrir, auk þess sem lagt var mat á fjölda mófugla á ferðum um svæðið.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV