Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Helgi hellti sér yfir Birgittu á átakafundi

16.07.2019 - 21:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingamaður Pírata, hélt reiðilestur um Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þingmann flokksins, á fundi Pírata í gærkvöld. Myndband frá fundinum, þar sem kosið var í trúnaðarráð flokksins, hefur verið birt á netinu. Birgitta var tilnefnd í trúnaðarráðið en fékk ekki kosningu.

Trúnaðarráði Pírata er ætlað „að bjóða sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna,“ segir á vef flokksins.

Á myndbandsupptökunni, sem er rúmlega sex mínútna löng og birtist á YouTube-rás vefsíðunnar Viljans, sést Helgi Hrafn tala í ræðustól gegn tilnefningu Birgittu, en Birgitta situr skammt frá og hlýðir á ræðuna.

"Ég treysti henni ekki til þess að halda trúnað,“ sagði Helgi. Hann sagði hana ófeimna við að búa til ósætti og raunar stærði hún sig af því.

„Hún grefur undan samherjum sínum ef hún sér af þeim ógn. Hún hótar samherjum sínum þegar hún fær ekki það sem hún vill,“ staðhæfði hann.

Þingmaðurinn fullyrti líka að Birgitta gerði lítið úr vinnu samherja sinna, jafnvel sérstaklega þegar þeim gengi vel. „Þetta er mín áralanga reynsla af því að vinna með Birgittu Jónsdóttur,“ sagði hann.

Helga Hrafni virtist vera mikið niðri fyrir. „Fyrirgefið að ég sé blóðheitur,“ sagði hann í miðri ræðu. Hann sagði að þingflokkur Pírata væri eini hópurinn í flokknum sem hefði stöðu til að standa uppi í hárinu á Birgittu, „og rétt varla svo.“

„Ég vona innilega að þessari tilnefningu verði hafnað,“ sagði Helgi Hrafn í lokin.

Birgitta óskaði þá eftir því að fá að tala og sagði að ef yfirgnæfandi meirihluti væri fyrir því að hafna tilnefningu hennar, þá væri það allt í lagi. „Ég hef nóg annað að gera.“

Hún sagði að sér fyndist ótrúlegt að heyra það sem fólk í valdamiklum stöðum innan flokksins hefði sagt á fundinum: „Mér finnst það ótrúlegt.“

„Ég get alveg tekið margt til mín og hef oft gert það, en ég upplifi bara svona ákveðið mannorðsmorð hér í kvöld. Og það er ekki fallegt,“ sagði Birgitta áður en hún gekk aftur til sætis.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV