Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Helgi Björns, Jógvan og Benni Hemm Hemm með nýtt

Mynd: dalurinn.is / dalurinn.is

Helgi Björns, Jógvan og Benni Hemm Hemm með nýtt

22.03.2020 - 16:00

Höfundar

Það er að venju komið víða við í Undiröldunni og í boði bæði vagg og velta að þessu sinni. Á hlaðborðinu er nýtt lag frá Holy B, húðflúrsrokk frá Osló, júrópopp slagari frá Our Psych og Jógvani auk þess að boðið er upp á færeyskt og íslenskt fönk, rólegheitaskrítnipopp og sveitatónlist úr Borgarfirði.

Helgi Björns - Það bera sig allir vel

Tón­list­armaður­inn Helgi Björns­son og Reiðmenn vind­anna héldu uppi stuðinu í beinni heiman frá Helga og inn á heim­ili Íslend­inga í gærkvöld. Helgi og félagar notuðu tækifærið til að frumflytja nýtt lag sem heitir Það bera sig allir vel.


Gunnar the Fifth - Hide From the World

Hljómsveitin Gunnar the Fifth er starfrækt í Osló þar sem margir vinnustaðir eru lokaðir eins og á mörgum stöðum í Evrópu. Gunnar Valdimarsson leiðtogi sveitarinnar hóaði liðsmönnum sveitarinnar samt sem áður saman í hljóðver til að vinna lagið og myndbandið Hide From the World.


Our Psych og Jógvan - Every Word You Say

Tónlistarþátturinn Hljómskálinn hefur boðið okkur sjónvarpsáhorfendum upp á skemmtileg samvinnuverkefni tónlistarmanna í vetur og það varð ekki breyting á því síðasta sunnudag. Þá komu saman rafpopparinn og Akureyringurinn Our Psych og hjartaknúsarinn Jógvan Hansen sem fóru að sögn verulega út fyrir þægindahringinn í laginu Every Word You Say.


MonkeyRat - Good Morning Reykjavík

Það þekkja kannski ekki allir færeyska fönkbandið MonkeyRat en það hefur nú samt sem áður spilað hér og þar um heiminn á undanförnum árum en sveitin var stofnuð 2006. Nú hafa þessir hressu fönk-Færeyingar sent frá sér lagið Good Morning Reykjavík sem er titillag nýrrar plötu.


Una Stef & the SP74 - Silver Girls

Áfram með fönkið því tónlistarkonan og Reykvíkingurinn Una Stef braust fram á sjónarsviðið á árinu 2014 með plötu sinni Songbook. Nú er hún komin með nýtt verkefni ásamt grúv-hljómsveitinni the SP74 sem er skipuð, ásamt henni, þeim Daníel Helgasyni, Baldri Kristjánssyni, Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur, Sólveigu Moravék og Elvari Braga Kristjónssyni.


Benni Hemm Hemm - Vegetables

Benni Hemm Hemm er duglegur þessa dagana en fyrr á árinu gaf hann út 10 laga plötu á íslensku sem kallaðist KAST SPARK FAST. Það er komið fram í mars og því ekki seinna vænna en að henda í aðra á ensku, en sú mun kallast Thank You Satan og er Vegetables fyrsta lagið af þeirri plötu. Platan kemur út á streymisveitum og vínyl í apríl.


Grasasnarnir - Sumt fólk er ómennskt

Borgarfjarðarbandið Grasasnarnir er þessi misserin að vinna að nýrri plötu sem er svokölluð heiðursplata. Platan er tileinkuð bandaríska söngsmiðnum John Prine og verða lög hans sungin á íslensku. Á dögunum sendu þeir frá sér lag af þessari væntanlegu plötu þar sem lag eftir kappann er komið með íslenskan texta og heitir í útgáfu Grasasna Sumt mannfólk er ómennskt.