Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helga Vala verður nefndarformaður

12.12.2017 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingflokkur Samfylkingarinnar ákvað í dag að Helga Vala Helgadóttir yrði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis næstu tvö ár.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þáðu í gær tilboð stjórnarmeirihlutans um að taka að sér formennsku í þremur fastanefndum þingsins: stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Jafnframt var ákveðið að Píratar hefðu formennsku í velferðarnefnd næstu tvö ár en Samfylkingin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og að þeim tíma liðnum myndu flokkarnir skipta á nefndum. Halldóra Mogensen verður formaður velferðarnefndar. Í dag ákvað þingflokkur Samfylkingarinnar að Helga Vala Helgadóttir yrði formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Formaður umhverfis- og samgöngunefndar verður þingmaður Miðflokksins en ákveðið verður á þingflokksfundi á morgun hver það verður.

Sjálfstæðisflokkurinn fær þrjá formenn fastanefnda, allsherjar- og menntamálanefndar, utanríkismálanefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Vinstri græn fá formann atvinnuveganefndar. Gengið verður frá því á morgun hverjir gegna þessum embættum. Framsóknarflokkurinn fær formennsku í fjárlaganefnd en Willum Þór Þórsson mun stýra henni.

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV