Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Helga Vala gekk burt þegar Pia tók til máls

18.07.2018 - 15:31
Mynd: Alþingi / RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk burtu af þingpöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, hélt hátíðarræðu á Þingvöllum í dag. Fyrr í dag ákváðu Píratar að sniðganga fundinn vegna þátttöku hennar. 

Tengsl Íslands og Danmerkur á hundrað ára fullveldisafmæli voru heiðursgestinum, Piiu Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins, hugleikin á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í dag.

Pia minntist þess að þegar undirritaðir voru samningar milli Íslands og Danmerkur um frumvarp til sambandslaga milli landanna tveggja á þessum degi fyrir hundrað árum hafi fundarmenn heimsótt Þingvelli. 

„Ég er ánægð með að geta staðið í þessum fótsporum hér 100 árum síðar,“ sagði Kjærsgaard.  Hún sagði að sameiginleg saga þjóðanna byggði á ríkjasambandi sem hafi staðið yfir í meira en 500 ár og enn værum við í góðu samstarfi, tvö fullvalda ríki. „Við erum eftir sem áður í sömu norrænu fjölskyldu. Við eigum náið og gott samstarf í Norðurlandaráði, Norðurskautsráði og NATO.“ 

Kjærsgaard sagði líka að tungumálið væri enn mikilvægur lykill í samskiptum Dana og Íslendinga, þó að danska væri hvorki töluð né skilin í sama mæli og áður fyrr. „Því miður leyfi ég mér að segja.“

Pia talaði um að Ísland væri eina landið fyrir utan danska konungsríkið þar sem danska væri skyldunámsgrein í skólum og enn settust fleiri Íslendingar að í Danmörku en nokkur öðru landi. 

Eftir ræðu Piu tók Guðni Th. Jóhannessen, forseti Íslands til máls, og las upp forsetabréf þar sem fundum Alþingis var frestað til 11. september.