Heklugjá - Ófeigur Sigurðsson

Mynd:  / 

Heklugjá - Ófeigur Sigurðsson

04.12.2018 - 16:48

Höfundar

„Skáldsagnaformið er á tímamótum. Ég er kannski bjartsýnn og á skjön við skoðanir annara en ég held að skáldsagan sé að rísa upp úr brunarústum póstmódernismans,“ segir Ófeigur Sigurðsson í samtali um Heklugjá, sem er bók vikunnar á Rás1.

Skáldsagan Heklugjá segir frá manni sem gengur daglega með hundinn sinn yfir Skólavörðuholtið og á Þjóðskjalasafnið þar sem hann grúskar í heimildum og rekur ævi ævintýramannsins og listamannsins Karls Einarsonar Dunganon, sem kallaði sig meðal annars greifa og hertoga af Sankti Kildu. Hann eltir slóð Dunganon um víða veröld og fjöldi annarra einstaklinga kemur við sögu sem teygir sig líka yfir í aðrar og dulrænar víddir. Og þótt Dunganon greifi virðist í fyrstu lifa mun ævintýralegra lífi en sögumaðurinn kemur fljótt í ljós að þar er líka mikil ólga undir yfirborðinu.

Þetta er fimmta skáldsaga Ófeigs og sú þriðja þar sem eldfjöll koma við sögu, en þær fyrri voru Jón (2010) og Öræfi (2014). Stíllinn er ekki ósvipaður þeim í Öræfum; verður oft eins konar vitundarflæði þar sem fleiri en ein frásögn fléttast saman í hröðum og stundum flóknum takti.

Rætt var við Ófeig í Víðsjá og hægt er að hlusta á viðtalið, símaviðtal til Antwerpen, í spilaranum hér að ofan, auk lesturs úr bókinni. Leifur Hauksson les. 

Auður Aðalsteinsdóttir er umsjónarmaður bókar vikunnar á sunnudag og gestir hennar verða þau Rósa Björk Gunnarsdóttir, flugfreyja og bókmenntafræðingur og Björn Þór Vilhjálmsson, bókmenntafræðingur.

 

Mynd:  /