Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hekla veldur heilabrotum

26.03.2013 - 19:20
Hamfarir · Innlent · Hekla · Suðurland
Mynd með færslu
 Mynd:
Hegðun Heklu að undanförnu veldur vísindamönnum heildabrotum. Því lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi á og við Heklu í morgun. Það verður í gildi um óákveðinn tíma en ekki gripið til annarra ráðstafana í bili.

Skömmu fyrir hádegi lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi vegna jarðhræringa við Heklu. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur segir jarðskjálfta yfirleitt hafa verið fyrirboða eldgoss í Heklu. Hinsvegar séu mælingar núna orðnar það nákvæmar að menn sjái fleiri skjálfta en áður.

Skjálftarnir hafa verið það vægir að þeir sem búa við Heklurætur segjast ekki hafa orðið þeirra varir. Annarsstaðar telja sumir sig hafa séð merki um að eitthvað sé á seyði. „Ég veitti því eftirtekt í morgun að það var eiginlega mjög heiðskýrt og það var svona skýjahattur yfir henni. Þetta var eitthvað öðruvísi en ég hef séð áður. Kannski hefur það verið tilfallandi en manni fannst eins og það væri eitthvað eða útaf einhverjum hita þannig að ég fór að hugsa: Er eitthvað að byrja að gerast þarna? Maður hefur svosem oft séð einhvern skýjakúf yfir henni en þetta var eitthvað aðeins öðruvísi,“ segir Sigurður Sigurðarson á Þjóðólfshaga I.