Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heitt vatn í Ólafsdal bætir uppbyggingarmöguleika

13.11.2019 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Minjavernd reisir nú sex ný hús í Ólafsdal í Gilsfirði ásamt því að gera upp skólahúsið. Fjárfesting Minjaverndar í uppbyggingu í dalnum hleypur á hundruðum milljóna. Fundur á heitu vatni breytir þá rekstrarmöguleikum töluvert.

Minjavernd hóf undirbúning við framkvæmdir í Ólafsdal 2014. Áformað er að reisa minnst sex hús í dalnum á eða við eldri húsgrunna. Deiliskipulag gefur þá möguleika á allt að tólf byggingum til viðbótar við skólahúsið þar sem Torfi Bjarnason og Guðlaug Zakaríasdóttir ráku fyrsta bændaskóla landsins frá 1880 til 1907. Gert er ráð fyrir að gistirekstur hefjist í Ólafsdal 2021.

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segir ekki á hreinu hversu miklir fjármunir fari í framkvæmdirnar.

„Málið er ennþá að þróast og á eftir að þróast töluvert, en það má gera ráð fyrir að þetta taki til sín allavega sjö til níu hundruð milljónir,“ segir hann.

Mynd með færslu
Þorsteinn Bergsson í gamla vatnshúsinu þar sem verður baðhús

Heitt vatn, baðhús og saga í hönnuninni

Heitt vatn fannst í Ólafsdal í október. Með því opnast fyrir fleiri kosti í rekstri, svo sem hita í gólf og baðhús, þar sem einu sinni var vatnshús. Ekki er gert ráð fyrir safni, en sagan er dregin fram í hönnun bygginganna.

Þar á meðal verður kaldur pottur í vatnshúsinu við horn hússins þar sem lækur var leiddur og mjólk var geymd í kæli.

„Við horfum til þess að í stað þess að geyma mjólk í kæli geti fólk kælt sig niður og farið hér í kaldan pott, og úr þessu vatnshúsi geri menn baðhús,“ segir Þorsteinn.

Óeðlilegt ef allir væru sáttir

Guðmundur Gunnarsson, sauðfjárbóndi í Gilsfirði, starfar einnig við framkvæmdir í Ólafsdal. Hann segir heimamenn hafa misjafnt í framkvæmdina.

„Það væri óeðlilegt ef ég segði að allir væru mjög ánægðir. En yfirleitt eru menn mjög ánægðir með þessar framkvæmdir,“ segir Guðmundur.

Mynd með færslu
Útlínur sýna þar sem reist verður á eldri húsgrunnum