Heitir milljón í fundarlaun fyrir 200 bíllykla

31.08.2019 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Konráð Benediktsson, framkvæmdastjóri hjá Bílabúð Benna, hefur heitið einni milljón fyrir þann sem hefur upp á bíllyklum sem stolið var af bílasölu notaðra bíla í Árbænum aðfaranótt föstudags. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var 150 til 200 bíllyklum stolið.

Ólafur skrifar færslu á Facebook-síðuna Brask og brall. Þar kemur fram að þremur bílum hafi verið stolið en strax hafi tekist að hafa upp á einum þeirra 

Hann segir að líklega verði tjónið að mestu leyti bætt en mikil vinna fari í að að skipta um skrár í viðkomandi bílum.  Þeir verða teknir úr sölu á meðan á því stendur.  „Þess vegna langar mig að bjóða þeim sem kemur með lyklapar til mín (bæði aðal og varalykill) 5.000 kr fyrir hvert sett sem hann lætur mig fá.“  Sá sem kemur öllum bíllyklunum til skila fær eina milljón. Ólafur gaf ekki kost á viðtali að svo stöddu.

Benedikt Eyjólfsson, eigandi Bílabúð, segir í samtali við fréttastofu að þetta sé ekkert stórmál, enginn hafi dáið eða slasast. Það væri þó betra ef bíllyklarnir kæmu í leitirnar. „Ef sá seki vill gefa sig fram þá getum við bara rætt hvort þessum peningum væri ekki betur varið til góðgerðarmála, eins og SÁÁ.“

Valgarð Valgarðsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að líklega hafi um 150 til 200 bíllyklum verið stolið af bílasölunni og að allavega sé einn bíll horfinn. Hann segir að lögreglan sé nú fara yfir þau gögn sem eru fyrir hendi og vildi ekki gefa upp hvort þjófarnir hefðu náðst á eftirlitsmyndavélum. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi