Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heitar umræður um skipulagsmál á Oddeyri

23.10.2019 - 11:52
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Afar skiptar skoðanir eru meðal íbúa á Akureyri um nýja skipulagslýsingu á Oddeyri. Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi, og Ragnar Sverrisson, kaupmaður, voru á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun þar sem fjörugar umræður sköpuðust.

Fyrr í þessum mánuði samþykkti bæjarstjórn Akureyrar fyrsta skrefið í vinnu sem miðar að því að breyta aðalskipulagi Akureyrar svo heimilt verði að byggja allt að fimm 6-11 hæða fjölbýlishús á reit á Oddeyri. Sóley Björk greiddi atkvæði gegn tillögunni. 

„Stórt mál“

„Það er rosalega mikil stefnubreyting sem er fólgin í þessari breytingu af því að í að aðalskipulagi er kveðið á um vistvæna byggð. Sem þýðir að það á að taka mið af því að fólki líði vel á þessum stað. Meðal annars er kveðið á um hámarkshæðir húsa, að það séu fjórar hæðir. Það er þessi hugmynd um vistvæna byggð sem verið er að hverfa frá í raun og veru með þessu. Þess vegna er þetta svona stórt mál,“ sagði Sóley. 

„Það á ekki að koma með svona viðamikla hugmynd, eins og vistvæna byggð ef það má bara blása henni í burtu ári seinna.“

„Finnst þetta mjög glæsilegt“

Ragnar Sverrisson, kaupmaður, er mikill áhugamaður um skipulagsmál á Akureyri. Honum líst öllu betur á hugmyndirnar. 

„Mér finnst þetta mjög glæsilegt, að byggja þarna þessar 11 hæðir og útsýnið verður hvergi betra en í svona háum húsum. Hins vegar er það rétt að þetta var samþykkt fyrir akkúrat einu ári, þetta nýja skipulag. Þetta er svona krúttlegt og sætt en það er bara ekki nógu gott ef byggingaraðilar treysta sér ekki til að byggja þarna hús til að hafa eitthvað upp úr því og geta staðið undir því. Í 30 ár er búið að vera tala um að vera að gera eitthvað á eyrinni. Þetta hefur alla kosti finnst mér, utan við að þetta er fallegt,“ sagði Ragnar. 

Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.