Heimurinn þarf á okkur að halda

Mynd:  / 

Heimurinn þarf á okkur að halda

18.01.2019 - 15:09

Höfundar

Hljómsveitin Reykjavíkurdætur fékk í gær MMETA verðlaunin, Music Moves Europe Talent Awards, á Eurosonic-hátíðinni í Groningen í Hollandi. Þær hlutu við sama tækifæri Public Choice-verðlaunin.

„Við bjuggumst ekki við þessu. Komandi frá pínulitla Íslandi, erum við með um 7000 fylgjendur á instagram og facebook. Við finnum ekki beint fyrir því að fólk viti hverjar við erum. Það er bara þegar við erum að spila á festivölum í útlöndum að það er bara fullt á risasviðum,“ segir Reykjavíkurdóttirin Steiney Skúladóttir í samtali við Óla Palla. „Fólk étur upp allt sem við gerum og klappar okkur upp í korter,“ bætir Steinunn Jónsdóttir við.

Steinunn segir að það sé súrrealískt að fá svona stór alþjóðleg verðlaun en hafa á sama tíma verið með mjög fá lög í spilun í íslensku útvarpi og fáir hafi mætt á útgáfutónleika þeirra í desember. „Það vita allir hverjar við erum, en ekki út frá tónlistinni okkar, heldur út frá því að þeir hafi einhverja skoðun á okkur,“ segir Steiney. „En það er allt í lagi, við elskum útlönd,“ bætir Steinunn við hlæjandi. Einhverjir myndu segja að það væri mikið afrek að vinna alþjóðleg verðlaun á borð við þessi fyrir rapp á íslensku, tónlistarform sem gengur mikið út á texta. „Mér finnst fólk oft tala um að það elski að heyra íslenskuna. Lifandi flutningur er líka stór hluti af því sem við erum, og krafturinn í honum skilar sér. En svo erum við líka með enskt slangur í textunum.“ segir Steinunn. „Þetta er fyrir öll skilningarvit,“ bætir Steiney við.

Í hljómsveitinni eru eins og stendur ellefu liðskonur. Þær er yfirleitt átta á sviði, sjö rappkonur og ein plötusnælda. Þær segja að upphaflega hafi Reykjavíkurdætur verið  meira eins og regnhlífarsamtök en hljómsveit en sé orðin skipulegri eftir að þær fóru að spila meira erlendis. „Það er svona ár síðan við byrjuðum að hafa hljómsveitaræfingar og svona, eftir Hróarskeldu,“ segir Steinunn. Núorðið séu þær með æfingar nokkrum sinnum í viku þar sem þær rappi ekki bara, heldur æfi líka til að mynda dans og spuna. „Það er ekkert annað í boði en að taka yfir heiminn,“ segir Steiney. „Maður bara finnur það, heimurinn þarf á okkur að halda.“ Á næstu mánuðum ætla Reykjavíkurdætur að taka upp nýja plötu í Berlín, og voru að byrja að vinna með erlendu umboðsteymi og bókurum. „Við ætlum bara að fara að semja og búa til nýtt sjó og hafa gaman,“ segja stelpurnar að lokum. 

Ólafur Páll Gunnarsson ræddi við Steiney Skúladóttur og Steinunni Jónsdóttur á Eurosonic hátíðinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Mýtan ekki búin að bíta í skottið á sér

Popptónlist

Glowie á lista NME yfir spennandi listamenn

Tónlist

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

Tónlist

Reykjavíkurdætur tilnefndar til verðlauna ESB