Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heimsókn Pence rædd í utanríkismálanefnd

18.08.2019 - 22:12
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, verður til umræðu á fundi utanríkismálanefndar Alþingis á morgun. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir fundinum og á hann mætir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Logi segir tvær ástæður vera fyrir því að hann óskaði eftir fundinum. Hann vilji að ráðherra greini frá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á flugvellinum í Keflavík. Í minnisblað frá því í júlí sem utanríkismálanefnd hefur fengið kemur fram að Bandaríkjamenn ætli að verja 16 milljörðum króna í uppbyggingu í Keflavík. Í öðru lagi hafi ráðherra ekki gefið fullnægjandi upplýsingar um efni fundar með Mike Pence, sem kemur til Íslands í byrjun september.

„En utanríkismálanefnd á að vera með í ráðum við allar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál og það er bara alveg sjálfsagt að þing og nefndin séu upplýst um þessa hluti. Og auðvitað á þjóðin heimtingu líka á að fá að fylgjast með þvi og fá að taka þátt í umræðu um það,“ segir Logi í samtali við fréttastofu.

Utanríkisráðherra hafnaði því í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að upplýsingagjöf sé ekki nægjanleg til utanríkismálanefndar um fund hans við varaforsetann. Hann segist þó ekki ætla að greina í smáatriðum frá þeim málefnum sem rædd verða á fundinum. 
 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV