Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heimilisofbeldi dýrt fyrir samfélagið allt

02.12.2019 - 08:37
Mynd: - - / Creative Commons Creative Common
Ný rannsókn sem unnin er upp úr gögnum Landspítalans leiðir í ljós að annan hvern dag kemur kona á spítalann með áverka vegna heimilisofbeldis. Beinn kostnaður spítalans vegna þessa nemur um hundrað milljónum á tíu ára tímabili.

Í rannsókninni var farið yfir umfang, eðli og kostnað heimilisofbeldis eins og það birtist í gögnum Landspítalans. Læknar skrái hins vegar aðeins niður það sem sjúklingar segja að hafi gerst, jafnvel þó grunur þeirra beinist að öðrum orsökum. Heimilisofbeldi gæti því verið mun algengara en þessi rannsókn bendir til.

„Við lásum yfir mikið af sjúkraskýrslum. Einhverjar töluðu um menn sem þær höfðu aðeins verið að hitta en þau væru ekki saman. Þá höfðum við viðkomandi ekki með í þessum gögnum. Þetta er því mjög stíft bara þegar fólk segir hátt og snjallt að þetta sé makinn þeirra, hvort sem þau eru í sambúð eða ekki, kærasti eða fyrrverandi eða hvað. Við erum því bara með þær sem sannarlega komu þangað út af heimilisofbeldi,“ sagði Drífa Jónsdóttir, doktorsnemi við læknadeild Háskóla Íslands, í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hulda Geirsdóttir
Drífa Jónasdóttir, doktorsnemi við læknadeild HÍ

Drífa segir að kostnaður spítalans hafi verið í kringum 100 milljónir á því tíu ára tímabili sem rannsóknin náði yfir.

„Helmingurinn er vegna innlagna, og hitt er bara komur. Þá kemurðu bara og færð aðhlynningu, en ferð svo heim og þarft ekki að leggjast inn. Þannig að það er gríðarlega kostnaðarsamt þetta, að menn ákveða að kjósa þessa aðferð í samskiptum við makann sinn,“ sagði Drífa. Þá er ótalinn sá kostnaður sem kemur vegna vinnutaps og fleira hjá þolendum.

Til þess að hafa rannsóknina hnitmiðaða var ákveðið að þrengja hringinn niður í karla sem beita konur ofbeldi. Ekki er reynt að gera lítið úr öðrum birtingarmyndum ofbeldis.

„Í þessari rannsókn er ekki verið að segja að konur séu aldrei vondar við menn. Það er alveg líka þannig. En þessi rannsókn snýst um þetta.“