Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Heimila utanvegaakstur með einu skilyrði

24.02.2016 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun hefur í fyrsta skipti gefið út sérstakt leyfi til utanvega aksturs, vegna kvikmyndatöku fyrir auglýsingu. Skilyrði fyrir leyfinu er að tekið verði fram í auglýsingunni að slíkur akstur sé ólöglegur.

Umsókn fyrir leyfi til utanvega aksturs í flæðarmáli við Ölfusárós, vegna upptöku á bílaauglýsingu fyrir sjónvarp, barst til Umhverfisstofnunar í janúar. Stofnunin ákvað að veita leyfið, og er það í fyrsta sinn sem slíkt er gert með vísun í ný náttúruverndarlög. 

„Við komumst að því að umhverfisáhrifin af því að veita þetta leyfi væru ekki mikil í þessu tilviki. Aksturinn mun fara fram í fjöruborði þar sem förin munu afmást strax og við erum með skilgreint svæði þar sem má aka utan vega. Við munum einnig veita framkvæmdinni eftirlit,“ segir Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun.

Sérstakt skilyrði var sett fyrir leyfisveitingunni; það þarf að koma skýrt fram í auglýsingunni að utanvega akstur sé ólöglegur á Íslandi. Stofnunin hefur þó enga tryggingu fyrir því að slíkt verði gert.

„Við munum bara vera í góðu samstarfi við fyrirtækið sem að sótti um leyfið og í leyfisveitingunni er einnig fjallað um að við munum hafa eftirlit með því hvernig skilyrðum leyfisins verður framfylgt. Við stöndum bara í þeirri trú að þetta verði uppfyllt og munum bara fylgjast með því,“ segir Aðalbjörg.

Aðalbjörg segir að það sé ekki Umhverfisstofnunar að meta hvort röngum skilaboðum sé komið á framfæri með því að heimila slíkan akstur. Skilaboðum sem gætu náð til fjölmargra væntanlegra ferðamanna.

„Nú er heimildin komin inn í lögin, lagaramminn gerir ráð fyrir því að það sé hægt að veita þessu leyfi. Um leið og gert er ráð fyrir því að hægt sé að veita leyfin, þá munum við bara taka til efnislegrar skoðunar þær umsagnir sem okkur berast og meta í hvert skipti hvort ástæða sé til þess að veita leyfið eða ekki,“ segir Aðalbjörg.