Heimakærir þáttastjórnendur bregða á leik

Mynd með færslu
 Mynd:

Heimakærir þáttastjórnendur bregða á leik

21.03.2020 - 13:50

Höfundar

Þáttastjórnendur í Bandaríkjunum hafa brugðið á það ráð að senda út þætti sína úr sófanum heima hjá sér til að bregðast við áhorfendabanni og hafa þættirnir því margir hverjir færst úr sjónvarpi og yfir á miðla eins og YouTube.

Grínistinn Trevor Noah, sem stýrir þættinum The Daily Show á Comedy Central, ákvað að halda þáttagerð áfram þrátt fyrir að geta ekki notað myndver þáttarins eins og vanalega. Teymið á bak við þættina vinnur nú allt áfram að þættinum en þó við aðrar aðstæður þar sem öll eru þau heima hjá sér. Á það við um handritshöfunda, framleiðendur, grafíska hönnuði og þáttastjórnandann sjálfan, en Noah stýrir nú þættinum úr sófanum heima hjá sér þar sem hann heldur sín reglulegu innslög um málefni líðandi stundar með gamansömum tón. Hann fær áfram gesti í þáttinn en nú ræðir hann við þá, sem og alla þá sem hafa regluleg innslög í þættinum, í gegnum Skype eða sambærileg forrit. Aðdáendur virðast hafa tekið vel í þetta uppátæki og hafa milljónir horft á þá þætti sem þegar hafa birst á YouTube.

Trevor Noah er þó ekki sá eini sem sendir út þætti frá eigin heimili. Conan O'Brien hyggst snúa aftur í sjónvarpið þann 30. mars en þátturinn verður að öllu leyti unninn af starfsfólki í sjálfskipaðri sóttkví. Að sögn Conans verður þátturinn tekinn upp á iPhone-síma og verða viðmælendur til tals í gegnum Skype. Hann bætti jafnframt við í Twitterfærslu að þátturinn yrði ekki fagur en áhorfendum væri velkomið að hlæja að þessari tilraun til þáttagerðar. 

Í raun er sömu sögu að segja af öllum kvöldþáttastjórnendum í Bandaríkjunum. Jimmy Fallon, Jimmy Kimmel og Stephen Colbert hafa allir tekið upp þætti heima hjá sér og eru með viðtöl í gegnum netið. Þeir fá einnig hjálp ættingja við dagskrárgerðina með misgóðum árangri. 

Samantha Bee, sem stýrir þættinum Full Frontal, fór aðeins aðra leið. Hún benti á að aðstæður væru auðveldar fyrir aðra þáttastjórnendur þar sem þeir byggju í risastórum einbýlishúsum. Hún ákvað því að taka sín innslög upp í litlum trékofa þar sem hún kennir áhorfendum einföld ráð til að lifa af.