Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heilu leikmyndirnar á borðunum

10.02.2020 - 17:00
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
„Þetta er bara orðið hluti af því að mæta á þorrablót Aftureldingar að skreyta borðin sín,“ segir Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir sem er í þorrablótsnefnd Aftureldingar í Mosfellsbæ en líklega er óvíða á landinu lagður annar eins metnaður í borðaskreytingar og þar.

„Við erum búin að halda þetta blót, með þessu sniði, í þrettán ár og þetta hefur verið að vinda upp á sig þennan tíma. Það byrjaði með því að einhver hópurinn skreytti sittt borð með veifum og einhverju dóti og síðan hefur þetta þróast í að fólk kemur með heilu leikmyndirnar. Einhverntíma var víkingaskip á einu borðinu, núna eru gínur á borðum og allskonar skraut, mis fyrirferðarmikið,“ segir Anna.

Sönkuðu að sér gærum

„Við erum búin að vinna í okkar borði síðan um áramót, þá var fyrsti fundur,“ segir Berglind Hreiðarsdóttir, sem var að skreyta eitt af borðunum þegar Landann bar að garði. 

 „Við erum með svona ekta þorraþema, við fórum út í skóg og sóttum greinar, við höfum sankað að okkur gærum og gærubútum og síðan keypt hitt og þetta, héðan og þaðan, sem passar inn í þemað. Svo komum við saman í gærkvöldi og röðuðum þessu upp heima mjá mér, til að sjá hvernig það kæmi út. Núna erum við að ferja dótið á staðinn og raða upp og útkoman er bara býsna góð, þykir okkur."

gislie's picture
Gísli Einarsson