Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heilsársbyggð í Grímsey gæti lagst af

07.11.2019 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bæjarfulltrúi á Akureyri segir að huga þurfi að því að heilsársbyggð í Grímsey geti lagst af. Grímseyingar bera fram óskir sínar og hugmyndir um framtíðina á fundi með fulltrúum bæjarins. Búið er að samþykkja að framlengja byggðarþróunarverkefnið Brothættar byggðir um eitt ár í Grímsey.

Bæjarstjórinn á Akureyri ásamt bæjarfulltrúum sitja nú fund með fólki sem er með lögheimili í Grímsey - eftir að um helmingur aflaheimilda eyjunnar var seldur burt. Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi er í verkefnastjórn Brothættra byggða. Hann segir hljóðið í íbúum að mörgu leyti gott en menn hafi að sjálfsögðu miklar áhyggjur. Á fundunum sé farið yfir stöðuna og framtíðarsýn hverrar fjölskyldu, til dæmis hvernig þau sjái fyrir sér búsetu í eynni. 

Grímsey hefur tekið þátt í byggðarþróunarverkefninu Brothættum byggðum frá árinu 2015. Miklar breytingar hafa orðið á þeim tíma. Fjarskiptasamband og samgöngur hafa verið bættar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa aukið þjónustu sína. Íbúaþróun hefur hins vegar ekki verið snúið við og var skólahald lagt niður í vor. Aðeins 11 manns búa í Grímsey í vetur.

Hugsanlega sé þetta búið

Gunnar segir að viðtöl við Grímseyinga klárist í næstu viku, eftir það verði hugmyndir þeirra teknar saman og greindar. „Við þurfum svo að boða fund með hópnum, helst öllum Grímseyingum á einum stað þar sem við förum bara yfir þetta og leggjum fram einhverjar sviðsmyndir sem hægt væri að vinna út frá. En það voðalega erfitt að segja núna hverjar þær sviðsmyndir geta orðið, en það er alveg öruggt að hugsanlega er ein sú að þetta sé bara búið, við vitum það ekki. En kannski verðum við bara að velta því fyrir okkur í ljósi þess sem er að gerast og hefur verið að gerst síðustu vikurnar,“ segir Gunnar. Hugsanlega geti heilsársbyggð lagst af og fólk búið þar yfir sumartímann. Það velti hins vegar á íbúum, hvaða aðgerðir þeir vilji fara í og hvort þær séu framkvæmanlegar. 

Högg þegar skólanum var lokað

Það hafi verið hnekkir fyrir Grímsey þegar skólanum var lokað. Ekki sé flutt út í svona einangraða byggð öðruvísi en að þar sé skóli. Því þurfi að huga að því hvað þurfi til þess að hefja skólahald aftur vilji fólk flytja út í eyju. Gunnar segir nokkrar góðar hugmyndir þegar hafa komið fram á fundunum en ekki sé hægt að segja meir um það á þessari stundu. 

Vilji til að halda áfram

Það sé þó ekki hægt að líta fram hjá því að sjávarútvegur sé grundvallaratriði í þessu öllu. „Það er alltaf vont, eins og gerist núna, að stærsta fyrirtækið þarf að selja kvótann vegna sérstakra aðstæðna og geti ekki selt hluta hans heldur þurfi að selja allt,“ segir Gunnar. Hann viti þó ekki betur en að það sé verið að skoða allar leiðir til þess að koma inn aftur og halda áfram, það geti hins vegar verið brekka þó fjármagn sé til staðar og telur ólíklegt að það gerist án utanaðkomandi stuðnings, til dæmis Byggðastofnunar.

Verkefninu Brothættar byggðir átti að ljúka í ár en nú hefur verið samþykkt að framlengja það um eitt ár sem Gunnar segir vera staðfestingu þess að það sé vilji fólks að málið verði skoðað til hlítar, hvað sé hægt að gera og að reynt verði að finna bestu hugsanlegu lausnina fyrir þau sem búa á staðnum.