Heillandi myndheimur í frosinni framhaldsmynd

Mynd: Frozen 2 / Frozen 2

Heillandi myndheimur í frosinni framhaldsmynd

26.11.2019 - 17:03

Höfundar

„Þrátt fyrir nokkra galla er Frosin II fínasta framhaldsmynd sem á fullt hrós skilið fyrir að fara nýja leið að efninu í stað þess að endurtaka fyrri formúlu,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson um framhaldið af hinni vinsælu barna- og unglingamynd.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Eflaust hefur mikil eftirvænting ríkt á mörgum heimilum nú um helgina, þegar langþráð framhald ævintýramyndarinnar Frozen frá 2013 kom loksins í bíó, en myndin hefur nú þegar slegið aðsóknarmet á heimsvísu sem teiknimynd á frumsýningarhelgi. Varla þarf að kynna þær systur Elsu og Önnu, sem hafa verið afar áberandi í barnamenningunni síðustu ár, ekki síst vegna poppsmellsins Let It Go, lags sem varð baráttusöngur ungra stúlkna um víða veröld og margir foreldrar kunna afturábak og áfram, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Frozen, eða Frosin, var óvenjuleg prinsessumynd hvað það varðar að hún sneri upp á margar klisjur um kvenhlutverk í Disneymyndum og gerði það vel, enda snerti myndin greinilega nógu sterkar taugar til að lifa og verða uppáhald margra krakka, svo ekki sé minnst á alla markaðssetninguna.

Stórmyndir Disney fá afar sjaldan framhaldsmyndir sem rata í kvikmyndahús – jú, Pixar-myndir á borð við Toy Story halda áfram, en prinsessumyndir eins og Brave, Tangled og Moana hafa ekki fengið um sig framhaldsmyndir, og stórmyndir eins og Aladdín eða Konungur ljónanna fengu á sínum tíma aldrei meira en ódýrar eftirhermur sem fóru beint á myndbandamarkaðinn. Hingað til hefur frostþorstanum verið svalað með óspennandi bókum og stuttmynd sem allar eiga það sameiginlegt að snúast á einn eða annan hátt um afmæli og lautarferðir. En nú eru systurnar Elsa og Anna mættar öðru sinni á hvíta tjaldið, eftir sex ára hlé, og engu er til sparað. Frosin II er skrifuð af Jennifer Lee sem leikstýrir jafnframt ásamt Chris Buck. 

Stærsta vandamálið sem framhaldsmynd á borð við Frosin II þarf að kljást við er líklega markhópurinn og aldursmunurinn innan hans. Myndin þarf bæði að ná til þeirra sem sáu hana í bíó fyrir sex árum og hafa elst í millitíðinni og þeirra sem koma tiltölulega nýir að skjánum. Og svo er auðvitað ekki verra ef hún nær líka til fullorðna fólksins. Ég fór til dæmis með fjögurra og átta ára dætrum mínum og báðar voru þær afar spenntar – önnur sjóuð í sínum frostfræðum, hin nýbúin að uppgötva ísdrottninguna – og að sjálfsögðu náði eftirvæntingin að smita foreldrana líka. Og það verður ekki annað sagt en að myndin hafi staðið undir væntingum hjá öllum – þó með nokkrum athugasemdum.

Það virðist nokkuð ljóst að fyrri myndin var ekki hugsuð með framhald í huga og seinni myndin þarf því að skrifa sig heilmikið afturábak til að bæta við söguna og búa í raun til heila mýtólógíu í kringum konungsríkið Arendell og fortíð þess, um foreldra Elsu og Önnu – sem voru varla til staðar í fyrri myndinni nema til þess að deyja og láta eftir sig ríkið – og um dularfulla náttúruþjóð Norðlinga sem byggist á menningu Sama, en Disney var í beinu samstarfi við samtök Sama til að passa upp á að gera menningarheimi þeirra góð skil í myndinni. Allar þessar viðbætur gera plottið ansi flókið fyrir barnamynd, því heilmiklum upplýsingum þarf að koma til skila og stundum er það dálítið stirðbusalegt, en að mestu leyti gengur það upp, sérstaklega þegar efninu er komið á framfæri á myndrænan hátt, eins og með höfuðskepnunum fjórum, eða minningunum sem eru frystar í vatninu.

Mynd með færslu
 Mynd: Frozen 2
Frosin II fer nýja leið að efninu.

Tónlistin og lögin eru ekki jafngrípandi og áður og ég sé fram á að vilja hoppa yfir ákveðin lög þegar diskurinn fer óhjákvæmilega í spilun heima, en á móti kemur er aðallag myndarinnar, Into the Unknown, verðugur arftaki Let It Go, og sérstaklega er flott hvernig melódían vinnur með gamla hefð hins norðlæga kúakalls, eða kulning, sem heyra mátti í hljóðmynd fyrri myndarinnar, en er hér fært fyrir miðju í gegnum hinn dularfulla söng sem kallar Elsu á vit örlaga sinna. Inni á milli eru stöku atriði sem hefði gjarnan mátt sleppa, eins og að bæta við enn einu krúttlegu dýri sem var algjör óþarfi – við höfum nú þegar Ólaf og Svein sem grínpersónur – og þar fann maður áþreifanlega fyrir fingrum markaðsdeildarinnar.

En á heildina litið er myndin sterk og grípandi og vel unnið með aðalpersónurnar, og fyrir utan allt upplýsingaflæðið sem þarf að troða inn vegna söguþráðarins, þá er sagan bæði dularfull og góð, hæfilega drungaleg og spennandi fyrir krakka á ólíkum aldri, og í raun algjör loftslagsdæmisaga: syndir feðranna hafa komið náttúrunni í uppnám og afkomendurnir þurfa að breyta og brjóta niður núið til að bæta úr því og koma aftur á jafnvægi. Myndheimurinn er líka afar heillandi og gott bíó, ístöfrar Elsu eru nýttir á ýmsa vegu, ævintýraskógurinn er fullur af undarlegu lífi, og myndin lítur óaðfinnanlega út. Þrátt fyrir nokkra galla er Frosin II fínasta framhaldsmynd sem á fullt hrós skilið fyrir að fara nýja leið að efninu í stað þess að endurtaka fyrri formúlu.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Margt er á huldu í nýrri stiklu fyrir Frozen 2

Mynd með færslu
Menningarefni

Komu til Íslands fyrir Frozen 2

Menningarefni

Aðdáendur Frozen vilja að Elsa verði lesbía

Frozen lagið á toppnum fyrir ári