Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Heilabilun eykst næstu áratugi

Mynd með færslu
 Mynd:
Gert er ráð fyrir mikilli fjölgun þeirra sem greinast með heilabilun á næstu áratugum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur hvatt þjóðir til að setja sér stefnu í þessum málaflokki.

Þetta kemur fram í drögum að stefnu um málefni einstaklinga með heilabilun sem hafa nú verið birt til umsagnar í Samráðsgáttinni. Í lok maí 2017 var heilbrigðisráðherra falið að móta stefnu fyrir málaflokkinn.

Vitundarvakning og fræðsla til almennings

Stefnan átti að fela í sér „ vitundarvakningu og fræðslu til almennings og aðstandenda, aukna áherslu á öflun tölulegra upplýsinga, markvissar rannsóknir og átak til að auka gæði umönnunar fyrir ört stækkandi sjúklingahóp í samfélaginu,“ að því er segir á vef Stjórnarráðs Íslands. 

Í ársbyrjun óskaði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, eftir því að Jón Snædal, öldrunarlæknir, tæki að sér að vinna drög að stefnu í málefnum fólks með heilabilun vegna mikillar þekkingar hans á þessu sviði. Jón hefur mikla reynslu af störfum með og fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess. Jón skilaði í liðinni viku drögum að stefnu sem má finna á vef Samráðsgáttar. Hægt er að skila inn umsögnum til 15. ágúst næstkomandi. 

Mun lengri meðallegutími hérlendis en erlendis

Í drögunum kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu sé aðeins ein deild á sjúkrahúsi sem er eingöngu fyrir einstaklinga með heilabilun. Hún er hluti af heilarbilunareiningu öldrunarlækningadeildar Landspítalans. Þar segir að húsnæðið sé óhentugt og ekki skipulagt með tilliti til þessarar tegundar þjónustu. Hér á landi er meðallegutími á þessari deild um þrír mánuðir, á meðan erlendis er hann um þrjár vikur. Skýrist það fyrst og fremst af skorti á viðeigandi hjúkrunarrýmum og skorti á úrræðum í heimahúsum. 

Lagt er til að aðstaða til meðferðar og hjúkrunar fyrir einstaklinga með heilabilun verði bætt og starfsemin efld. Ef hjúkrunarrýmum fjölgi megi gera ráð fyrir að meðallegutími á sjúkrahúsdeild verði sambærilegur og annars staðar. 

 

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV