Hefur fengið fjöldan allan af kveðjum frá Ítölum

Mynd: RÚV / RÚV

Hefur fengið fjöldan allan af kveðjum frá Ítölum

16.03.2020 - 21:25

Höfundar

Síðustu daga hafa myndbönd frá Ítalíu sem sýna íbúa þyrpast út á svalir til að spila, syngja og dansa vakið heimsathygli. En þetta gera Ítalir til að stytta sér stundir og sýna samstöðu í útgöngubanni sem ríkir í landinu vegna COVID19 faraldursins. Siðurinn hefur nú einnig náð til Íslands en tenórinn Gissur Páll Gissurarson brá sér út á svalir og söng óð til Ítala eftir áskorun granna sinna. Flutningur hans hefur vakið mikla athygli og hefur Gissur fengið urmul af kveðjum frá Ítölum.

Gissur Páll bjó á Ítalíu í átta ár ásamt eiginkonu sinni og rann því blóðið til skyldunar að veita ítölsku þjóðinni stuðning. Gissur Páll segist hafa velt því fyrir sér að fara út á svalir að syngja en þegar að nágranni hans skoraði á hann á Facebook kom ekki til greina að skorast undan. „Auðvitað fer ég bara út og syng og sendi fallegar kveðjur til vina minn á Ítalíu,” segir Gissur Páll. Myndbandið af flutningnum sló í gegn, bæði hérlendis og á Ítalíu. „Ég er búinn að fá urmul af kveðjum frá Ítölum um alla Ítalíu.”

Gissur Páll segir að þarna hafi komið sér vel að eiga góða granna en hann býr í Eskihlíð og hefur húsfélagið í blokkinni áður komist í fréttirnar sökum góðs vinskapar íbúa sem þar búa. Til marks um góða stemningu í blokkinni segir Gissur Páll að hann hlakki ávallt til að mæta á húsfundi. Hann segir að það hafi komið upp alvarlegt atvik á síðasta húsfundi þar sem ein íbúðin er komin á sölu. „Nú er tækifæri fyrir þá sem eru virkilega vandað fólk og skemmtilegt að kaupa,” segir Gissur Páll léttur og segir að það valsi ekkert hver sem er þarna inn og skemmtinefndin þurfi að hafa puttana í því hver kaupir íbúðina. 

Eins og með margt tónlistarfólk hefur Gissur Páll ekki farið varhluta af afbókunum sem dynja nú á skemmtikröftum enda hefur tónleikahald nánast lagst af hérlendis á meðan á samkomubanni stendur. Gissur Páll tekur þó stöðu mála af miklu æðruleysi. „Það er ekkert að gera, það er búið að afbóka allt og loka öllu þannig að í útseldum verkefnum er ekkert en það kemur,” segir Gissur Páll. Allir verði reiðubúnir í haust þegar að verkefnin komi inn og þá verði gaman. „Maður verður bara að taka þessu af æðruleysi og taka bara einn dag í einu og muna að hafa bara gaman. Það er náttúrulega ótrúlegt tækifæri, svo framarlega sem fólk er ekki veikt og missir heilsu, að fá tækifæri til að geta ekkert annað en að gjörbreyta munstri sínu,” segir Gissur Páll að lokum.