Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur fáar klukkustundir til að mynda stjórn

29.05.2019 - 12:21
epa07606465 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu delivers a media statement in the Knesset (Israeli parliament) in Jerusalem, 27 May 2019. According to local reports, coalition negotiations between Israeli Prime Minister Netanyahu's Likud party and Lieberman's party did not succeed as a 29 May deadline is looming to form a government.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelska þingið ræðir nú að rjúfa þing og boða til kosninga, aðeins rúmum mánuði eftir síðustu þingkosningar. Frestur til að mynda ríkisstjórn rennur út á miðnætti.

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur gengið illa að mynda ríkisstjórn. Hann fékk umboð til stjórnarmyndunar eftir kosningarnar 9. apríl. Hann hefur frest til miðnættis í kvöld, eða til klukkan níu á íslenskum tíma. Það þykir ólíklegt að hann nái því vegna þess að Avigdor Lieberman, fyrrverandi varnarmálaráðherra og leiðtogi Yisrael Beiteinu-flokksins, ætlar ekki styðja ríkisstjórn Netanyahus nema að frumvarp um herskyldu strangtrúaðra gyðinga verði samþykkt. Þeir eru nú undanþegnir herskyldu og stjórnmálaflokkar strangtrúaðra gyðinga sem Netanyahu leitar einnig stuðnings hjá eru mjög á móti þessu frumvarpi.

Nái Netanyahu ekki að mynda ríkisstjórn á næstu klukkutímum gæti hann skilað stjórnarmyndunarumboðinu til forsetans sem myndi þá afhenda það öðrum. Þriðji möguleikinn er að ísraelska þingið kjósi um að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga, nokkuð sem þingið er að ræða í þessum töluðu orðum.