Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur engar áhyggjur af rannsókn Frakka

epa07234198 Hassan Al Thawadi, Secretary General of the Supreme Committee for Delivery & Legacy of the 2022 FIFA World Cup speaks during an unveiling ceremony of 2022 FIFA World Cup opening and final games 80,000 seating capacity Al-Lusail Stadium design at Al Lusail city 20 kilometres north of the capital Doha, Qatar, 15 December 2018.  EPA-EFE/STR
Hassan Al Thawadi. Mynd: EPA

Hefur engar áhyggjur af rannsókn Frakka

22.06.2019 - 08:17
Hassan Al Thawadi, formaður skipulagsnefndar Katars vegna HM 2022 í fótbolta, segir að stjórnvöld þar í landi hafi engar áhyggjur af rannsókn Frakka á meintri spillingu við valið. Michel Platini, fyrrverandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, var yfirheyrður í nokkrar klukkustundir af frönskum rannsakendum á miðvikudag vegna málsins.

Al Thawadi sagði blaðamönnum í Brasilíu í dag að eftir því sem honum skildist hafi Platini ekki verið handtekinn. Það séu engar nýjar fréttir í þessu og hann geti ekki tjáð sig frekar um málið þar sem það er enn til rannsóknar. „Ég get þó sagt að yfirvöld höfðu ekki samband við okkur," hefur AFP fréttastofan eftir honum. Þá bætti hann því við að rannsókn bandaríska lögmannsins Michael Garcia hafi hreinsað Katar af öllum ásökunum.

Valið á gestgjöfum HM 2018 og 2022 fór fram árið 2010. Það hefur þótt verulega umdeilt, og kom mörgum á óvart að Rússland og Katar hefðu orðið fyrir valinu. Valið á Katar þótti sérstaklega umdeilt, og varð orðrómurinn um mútugreiðslur hávær. Rannsókn Garcia stóð yfir í tvö ár, og fann hann engar sannanir fyrir því að hvorki Rússland né Katar hafi greitt fyrir atkvæðin. Efnahagsbrotadeild frönsku lögreglunnar hóf svo nýja rannsókn árið 2016 vegna ásakana um spillingu, samsæri og að beitt hafi verið óeðlilegum aðferðum til að hafa áhrif á kosningarnar. 

Franska rannsóknin beinir sjónum sínum að áhrifum Frakka. Þar eru Platini og fyrrverandi forsetinn Nicolas Sarkozy í sviðsljósinu. Samkvæmt tímaritinu France Football var haldinn leynifundur í Elysee höllinni í nóvember árið 2010. Ásamt þeim Sarkozy og Platini, sem þá gegndi bæði embætti forseta UEFA og varaforseta alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, er Tamim bin Hamad al-Thani, þáverandi prins af Katar, sagður hafa setið fundinn. Aðeins rúmri viku síðar hlaut Katar flest atkvæði sem gestgjafaþjóð HM 2022.

Tengdar fréttir

Evrópa

Platini leystur úr haldi

Erlent

Handtökur vegna HM í Katar