Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefur ekki trú á að Spánarstjórn standi við loforðin

03.02.2020 - 22:10
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RUV
Josep Costa, varaforseti katalónska þingsins, á ekki von á stefnubreytingu spænskra stjórnvalda vegna sjálfstæðisbaráttu Katalóna, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Spánarkonungur hvatti til samstöðu þegar spænska þingið var sett í dag.

Það var mikið tilstand í Madríd í dag þegar spænska þingið var sett en við það tilefni koma þingmenn úr báðum deildum saman. Filippus Spánarkonungur setti þingið í dag og hvatti til aukinnar samheldni. „Spánn getur ekki bara verið fyrir fáa útvalda, heldur verður að vera allra, alltaf,“ sagði Filippus. Það er kannski ekki vanþörf á því sjálfstæðisbarátta Katalóna hefur skipt þjóðinni í fylkingar. Pedro Sanchez forsætisráðherra myndaði nýja ríkisstjórn í byrjun árs og hefur heitið viðræðum við aðskilnaðarsinna. Þær hafa nú legið niðri í tæpt ár en búist er við að sjálfstæði Katalóníu verði eitt erfiðasta viðfangsefni ríkisstjórnar hans. 

Costa var hér á landi á dögunum og á ekki von á því að Sanchez standi við loforðin. „Fram til þessa höfum við ekki séð neina breytingu, kúgunin heldur áfram, pólitísku fangarnir eru ekkert nær því að fá frelsi og loforð stjórnvalda hafa engu breytt og ég efast um að þau geti nokkru breytt,“ segir Costa. 

Hann hefur síðustu vikur farið milli smærri Evrópuríkja til að afla stuðnings við sjálfstæðisbaráttu Katalóna, við Carles Puigdemont fyrrum leiðtoga aðskilnaðarsinna og það að fá þingmenn lausa sem sitja í fangelsi fyrir þátt sinn í að reyna að koma á sjálfstæði í Katalóníu. Hann kom við í Færeyjum á leið sinni til Íslands og sagðist sérstaklega þakklátur þingforsetum ríkjanna fyrir að tala máli kollega síns í Katalóníu. 

Costa segir óvíst hvert framhaldið í Katalóníu verði en hann segist viss um að meirihluti Katalóna sé hlynntur sjálfstæði, það sé þó mikil andstaða innan spænsku stjórnarinnar að fá þann vilja skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Eftir því sem ástandið hefur versnað þá hafa fleiri orðið sannfærðir um að sjálfstæði sé eina lausnin. Svo það er mun mikilvægara en áður að fá það fram og ég sé ekki fyrir mér að það verði nein breyting á stuðningi við sjálfstæði,“ segir Costa.