Hefur bjargfasta trú á Skaganum 3x og Þorgeiri & Ellert

26.03.2020 - 12:30
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness.
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Fjörutíu og þremur var sagt upp hjá fyrirtækjunum Skaganum 3x og Þorgeiri og Ellert á Akranesi í gær. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri segir höggið þungt og að meira sé í aðsigi. Aðgerðir ríkisstjórnar séu þó skaðaminnkandi og sveitarfélagið undirbýr mótvægisaðgerðir.

„Já, þetta er klárlega áfall fyrir bæjarfélag eins og okkar við erum auðvitað að sjá það að hér á Íslandi almennt er að stefna í töluvert atvinnuleysi,“ segir Sævar.

Hefur trú á því að fyrirtækið komist yfir hjallann

Hann segir að þótt stefni í aukið atvinnuleysi séu aðgerðir ríkisstjórnarinnar mikilvægt útspil og líklegar til þess að mýkja lendinguna í kórónuveirufaraldrinum. Þær séu ástæða þess að mörg fyrirtæki eigi eftir að komast yfir hjallann, þar á meðal Skaginn3x og Þorgeir og Ellert.

„Ég hef trú á því að þetta flotta fyrirtæki sem er núna að neyðast til þess að segja upp fólki eigi eftir að finna leiðir til þess að efla sig á ný og fara í ráðningar. Það er mín bjargfasta trú.“

Undirbúa mótvægisaðgerðir

Kaupstaðurinn hefur, líkt og önnur sveitarfélög, undirbúið aðgerðir til þess að spyrna við og minnka áhrif faraldursins á atvinnulíf og efnahag bæjarins. Í því felst aukin fjárfesting og að stuðlað sé að uppbyggingu og aukinni atvinnu. Sævar segir að því fylgi vissulega útgjöld.

„Þær munu hafa í för með sér að við erum að fara í verulega auknar fjárfestingar. Akraneskaupstaður býr við það að vera skuldlítið sveitarfélag og núna er tækifærið til þess að gefa í og fara í alvöru viðspyrnu,“ segir hann.

Ekki náðist í stjórnendur fyrirtækjanna við gerð fréttarinnar.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi