Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hefja siglingar milli Reykjavíkur og Akraness

12.06.2017 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Jómfrúarsigling nýrrar ferju sem siglir milli Reykjavíkur og Akraness verður á fimmtudag og áætlun hefst næsta mánudag. Ferjan er nú í Þórshöfn í Færeyjum og á leið heim. Ferjan fær ekki nafnið Akraborg, eins og forveri hennar.

Tilraunaverkefni

Sigling ferjunnar er tilraunaverkefni sem stendur í hálft ár, frá júní og fram í október. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti að ráðast í þetta verkefni í vetur. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá við afgreiðslu málsins og sagðist ekki vilja að fjármunir skattborgara í Reykjavík færu í tilraunaverkefni sem þetta.

25 mínútna sigling

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að kostnaðurinn við verkefnið nemi um fimmtán milljónum króna á hvort sveitarfélag. „Ég er bara mjög vongóður um að þetta muni búa til valkosti fyrir annars vegar bæjarbúa og svo Reykvíkinga sem að eru að sækja vinnu hér á Akranesi og svo öfugt til Reykjavíkur, að þetta verði fararskjóti sem muni nýtast. Það er auðvitað orðinn gríðarlegur umferðarþungi inn í borgina og töluverður spotti að fara vegna umferðarþungans þannig að það að fá öfluga samgöngubót inn í Reykjavík þar sem tekur aðeins 25 mínútur að sigla yfir hafið, það er bara mjög spennandi.“

Viðhafnarsigling á fimmtudag

Sæferðir annast rekstur ferjunnar héldu starfsmenn Sæferða og Eimskipa til Noregs að sækja hana. Samkvæmt upplýsingum frá Sæferðum er ferjan nú stödd í Þórshöfn í Færeyjum. Ferjan hefur aðallega siglt um norska firði og því ekki gerð til mikilla langferða. Heimferðin hefur þó gengið vel og í dag heldur ferjan áfram til Vestmannaeyja og svo til Reykjavíkur. Viðhafnarsigling verður á fimmtudag og þá stendur til að opinbera nafn ferjunnar en hún mun ekki heita Akraborg eins og forveri hennar. Ferjan er rúmur sjö og hálfur metri á breidd og tuttuguogtveggja og hálfs metra löng. Hún tekur 112 manns í sæti, er ekki bílaferja, og siglt verður milli Reykjavíkur og Akraness þrisvar á dag. Um helgina verða nokkrar siglingar til reynslu og svo er gert ráð fyrir því að áætlun hefjist á mánudaginn í næstu viku.