Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hefja frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs

07.12.2019 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír þingmenn samþykktu á fundi stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar í gær að hefja frumkvæðisathugun á því hvernig Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, myndi láta meta hæfi sitt vegna tengsla sinna við útgerðarfyrirtækið Samherja og hvort tilefni hefði verið fyrir slíkri athugun í ráðherratíð hans. Þingmenn meirihlutans í nefndinni gagnrýndu tillöguna og töldu réttast að ráðherra væri fyrst gefið færi á að útskýra mál sitt.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar, Andrés Ingi Jónsson, sem er óháður þingmaður og Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, stóðu að tillögunni en aðeins þarf þrjá þingmenn til að samþykkja slíka frumkvæðisathugun. 

Ummæli Kristjáns Þórs tilefni athugunarinnar

Tilefni athugunarinnar eru meðal annars ummæli Kristjáns Þórs þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra árið 2017 og svo í óundirbúnum fyrirpurnatíma á þessu ári. Árið 2017 sagði ráðherrann að hann ætlaði að láta meta hæfi sitt ef upp kæmu mál sem snertu Samherja sérstaklega en Kristján var stjórnarformaður félagsins fyrir 19 árum og er æskuvinur Þorsteins Más Baldvinssonar.  Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um miðjan nóvember á þessu ári sagði Kristján að í hvert sinn sem mál kæmi upp tengt Samherja myndi hann láta meta hæfi sitt og ef einhver vafi léki á um í þeim efnum myndi hann víkja sæti. „Það hefur aldrei gerst,“ sagði hann í svari sínu við fyrirspurn Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, segir í samtali við fréttastofu að það verði gott að fá það á hreint hvaða ferlar þetta séu sem fari í gang þegar ráðherra láti meta hæfi sitt og hvort það hafi komið upp einhver tilvik þar sem ráðherra hefði átt að láta meta hæfi sitt. „Þetta er sýnidæmi um vanhæfisúttekt ráðherra.“

Töldu formann þegar hafa myndað sér skoðun

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður nefndarinnar, verður ekki með framsögu málsins heldur Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. „Það var ekki vilji til þess hjá meirihluta nefndarinnar að ég hefði framsögu um málið. Þeim finnst ég hafa gert upp hug minn varðandi það hvort ráðherrann sé vanhæfur.“  Hún lagði til að Andrés yrði framsögumaður en á það féllst meirihlutinn heldur ekki.

Hún segir fullt tilefni fyrir þessari frumkvæðisathugun og nefnir meðal annars að Kristján Þór hafi lýst yfir eftir umfjöllun um Samherjaskjölin að hann myndi segja sig frá öllum málum tengdum Samherja. Engu að síður hafi hann setið ríkisstjórnarfund þar sem teknar voru ákvarðanir um aðgerðir vegna Samherjaskjalanna. Hún tekur skýrt fram að þessi frumathugun sé engin niðurstaða og ekkert sé því til fyrirstöðu að ráðherra komi fyrir nefndina. „En mér finnst það ekki skilyrði fyrir því að hefja frumkvæðisathugun.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, segir þingmennina þrjá hafa skýlausan rétt til að hefja frumkvæðisathugun og hann virði það. Við slíkar ákvarðanir þurfi að vanda vel til verka og þess vegna hafi honum fundist rétt að nefndin kallaði ráðherra á sinn fund og fengi frekari skýringar frá honum áður en slík ákvörðun væri tekin. „Það hefði þá mátt taka ákvörðun um frumkvæðisathugun eftir slíkan fund.“  Þá hefði hann heldur ekki heyrt rök fyrir því af hverju fólk vildi ekki fá allar skýringar og gögn áður en það tæki sína ákvörðun.  Kolbeinn vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið og sagði það ekki hlutverk nefndarmanna að tjá sig fyrr en að athugun lokið. „Því hlutverk okkar er að leggja hlutlaust mat á þetta.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV