Hefðu aldrei átt að senda reykkafara eftir tölvu

29.11.2019 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki var sótt um leyfi fyrir breyttri notkun byggingar við Miðhraun í Garðabæ sem gjöreyðilagðist í miklum eldsvoða í apríl í fyrra. Það skortir ekki lög og reglur heldur að eigendur bygginga fari eftir þeim, að mati slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins. Ekki hefði átt að senda reykkafara inn í húsið í leit að tölvu.

Erfiðara en slökkviliðið átti von á

Mannvirkjastofnun telur umhugsunarvert að reykkafarar hafi verið sendir inn í eldsvoðann. Ekki hafi þurft að bjarga fólki úr byggingunni. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Höfuðborgarsvæðisins tekur undir þetta. Slökkviliðsmaður var hætt kominn við leitina. „Ég ber ábyrgð á því. Þegar við horfum í baksýnisspegilinn hefðum við aldrei átt að gera það. Við vorum að berjast við eitthvað sem við héldum að væri annað. En síðan var þetta mikið meira en við áttum von á, miðað við stærð húss,“ segir Jón Viðar.

Reykkafararnir voru sendir til þess að finna tölvu frá Marel með dýrmætum hugbúnaði. Búið var að gera breytingar á húsnæðinu sem ekki sáust á teikningum og það ruglaði reykkafara og stjórnendur aðgerða. Mikil mildi þótti að ekki fór verr þegar reykkafari féll niður um eina hæð. Hann komst sjálfur upp á næstu hæð aftur og fékk aðstoð við að komast út úr byggingunni.

Ekki skortur á reglum heldur vilja til að fara eftir þeim

Húsið gjöreyðilagðist í brunanum. Í því var meðal annars fyrirtækið Geymslur sem leigði út rými fyrir fólk og fyrirtæki. Húsinu var breytt úr kvikmyndastúdíói fyrir Latabæ í lager fyrir fataframleiðandann Icewear, án leyfis. Vegna þessa voru brunavarnir ekki eins og þær áttu að vera. 

Jón Viðar segir að þetta sé því miður algengt. „Ég held að það sé númer eitt, tvö og þrjú sem við lærum af þessu, við sem slökkvilið og ég vona að aðrir læri líka, fasteignaeigendur og allir sem koma að byggingum að fylgja lögum og reglugerðum. Það er ekki skortur að umgjörð, þá lögum og reglum til að hafa þetta í lagi. Heldur vantaði vilja til að fara eftir því.“

Latibær áhættulítil starfsemi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti að mati Mannvirkjastofnunar ekki reglubundnu eldvarnareftirliti. Vegna stærðar hússins hefði átt að skoða það einu sinni á ári.  „Við vorum búin að skoða Latabæ þegar hann var þarna. Okkar mat var að þetta væri það áhættulítil starfsemi og lítið brunaálag að það væri ekki þörf fyrir það að skoða það reglulega,“ segir Jón Viðar jafnframt.

Slökkviliðið hafi ekki fengið að vita að breytingu í notkun byggingarinnar. „Við vissum ekki að þessari breytingu. Ef við hefðum vitað af henni þá klárlega hefði þetta verið í okkar radar.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi