Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hefði viljað opinbera sambandið fyrr

16.11.2017 - 20:56
Mynd: ruv / ruv
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sér mikið eftir því að hafa ekki opinberað fyrr ástarsamband sitt við Jónínu Leósdóttur. Þær eru nú giftar en héldu sambandinu leyndu í fimmtán ár af ótta við að Jóhanna yrði hrakin úr pólitík. Hún segir pólitískan feril sinn oft hafa einkennst af átökum við karla á þingi.

Ævisaga Jóhönnu  kom út í  dag en hún ber heitið Minn tími eftir Pál Valsson. Þar fer hún yfir litríkan feril sinn í stjórnmálum allt frá árinu 1978 þegar hún komst fyrst inn á þing, ein þriggja kvenna og gerir upp árin eftir hrun þegar hún tók við embætti forsætisráðherra árið 2009 og leiddi ríkisstjórn Samfylkingar og VG.  Jóhanna á 35 ára stjórnmálaferil að baki og segir hann oft hafa einkennst af miklum átökum við karla.  Hún hafi verið eina konan í þingflokki Alþýðuflokksins í 10 ár og eina konan í ríkisstjórn í sjö ár á tímabilinu 1987-1994. Það hafi oft verið einmanalegt og erfitt.       

Jóhanna og eiginkona hennar Jónína Leósdóttir felldu hugi saman í byrjun níunda áratugarins og héldu sambandi sínu leyndu í fimmtán ár. Jóhanna hefur lítið rætt persónuleg mál sín opinberlega en gerir þeim vel skil í ævisögunni.  „Þessi fimmtán ár voru okkur mjög erfið en við óttuðumst að það myndi bitna á mér í pólitíkinni eða börnin okkar fengju að finna fyrir því,“ segir Jóhanna.  Hún segir að þegar loksins þær ákváðu að byrja búa saman um aldamótin og gerðu sambandið opinbert hafi það verið auðveldara en hún hafi búist við því viðhorfin í samfélaginu hafi verið töluvert breytt frá því sem áður var.  „Það er pínulítil eftirsjá í mér að hafa ekki opnað sambandið fyrr ég verð að segja það,“ segir Jóhanna.  

Hluti úr viðtali við Jóhönnu var sýnt í Kastljósi í kvöld í tilefni af útgáfu bókarinnar en viðtalið við hana í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan. 

 

 

 

 

helga.arnar's picture
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV