„Hefði verið sprautaður með rítalíni daglega“

Mynd: RÚV / RÚV

„Hefði verið sprautaður með rítalíni daglega“

05.11.2019 - 15:36

Höfundar

Foreldrar Ólafs Jóhanns Ólafssonar voru tíðir gestir á skrifstofu skólastjóra þegar Ólafur var að alast upp enda voru skammarstrik daglegt brauð hjá honum. Ólafur býr í New York þar sem hann hefur látið til sín taka í bandarísku viðskiptalífi ásamt því að senda frá sér 14 bækur. Hann er staddur á Íslandi til að fylgja nýrri skáldsögu úr hlaði.

Rithöfundurinn og athafnamaðurinn Ólafur Jóhann Ólafsson á ekki langt að sækja hæfileika sína á ritvellinum. Faðir hans og nafni, Ólafur Jóhann Sigurðsson, gaf út fjölda skáldsagna, smásagnasöfn og ljóð á glæstum ritferli og hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976. Þrátt fyrir að vera meðvitaður um starfsvettvang föður síns þótti 13 ára Ólafi Jóhanni vandræðalegt þegar hann var ásamt skólasystkinum sínum í gagnfræðaskóla látinn lesa Litbrigði jarðarinnar eftir pabba sinn en hún fjallar um unglingsástir. Þótti unglingnum erfitt að allir væru að lesa um sýn föður síns á þeim. „Þetta var vandræðalegt fyrir dreng á gelgjuskeiðinu,“ segir Ólafur Jóhann kíminn í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur á Rás 1. 

„Ég reyndi á þolrif foreldra minna“

Foreldrar Ólafs eignuðust hann þegar þau voru orðin hálffimmtug og eldri bróðir hans nítján ára. Hann ólst upp í fjölskylduhúsi við Suðurgötu og viðurkennir að hafa verið fyrirferðamikið barn og að móðir hans hafi oft verið kölluð upp í skóla til hans til að lægja öldur. Sem barn var Ólafur Jóhann iðulega rekinn úr tímum og var tíður gestur hjá skólastjóranum. „Ég var uppátækjasamur og ég reyndi á þolrif foreldra minna og annarra,“ viðurkennir hann sposkur. „Þetta var rifjað upp að gamni þegar ég varð eldri og foreldrar mínir tóku þessu eins vel og hægt er en þau hafa Jesúsað sig nokkrum sinnum.“

Þrátt fyrir að það hafi gustað um hann og hann hafi gjarnan verið settur í skammarkrókinn þá stóð hann sig vel í skólanum. „Námið lá alltaf vel fyrir mér svo þótt ég væri líklega óþekkastur í skólanum var hitt í fínu lagi. Ég held ég hafi eyðilagt ímyndina af óþekktaranganum sem tossa.“

„Skuggi föður míns var aldrei sjáanlegur“

Hann byrjaði ungur að reyna fyrir sér á ritvellinum. „Ég varð bókhneigður snemma og fékk bakteríuna 12-13 ára. Ungur var ég byrjaður að pára eitthvað en sem betur fer lenti flest þar sem það á að lenda - í ruslafötunni,“ segir Ólafur og hlær. Það var um svipað leyti sem hann birti fyrsta ljóðið í Lesbók Morgunblaðsins og fljótlega birtust skrif hans í Tímariti Máls og menningar.

Fimmtán ára sýndi hann föður sínum ljóðabókahandrit eftir sig og las faðir hans heitinn handritið og bauð syni sínum í göngutúr í kringum tjörnina. „Honum tókst að hvetja mig en um leið ráðleggja mér að bíða. Hann sagði mér að setja hlutina í salt og sjá hvernig þeir kæmu úr saltinu,“ rifjar hann upp og segist ekki hafa tekið því illa enda hafi hann mátt við því að öðlast aðeins meiri þroska áður en fyrsta bókin liti dagsins ljós.

Fyrsta bókin, Níu lyklar, kom svo út árið 1986. „Hún fékk góðar viðtökur og athygli miðað við að þarna var strákpjakkur að gefa út smásagnasafn,“ segir hann. Bókin seldist vel og fékk ágætis umfjöllun. Hann segist aldrei hafa upplifað, þrátt fyrir að hafa valið sér sama starfsvettvang, að hann hafi verið í samkeppni við föður sinn á neinn hátt. „Skuggi hans var aldrei sjáanlegur,“ segir hann ákveðinn. 

„Það gat fokið í mann“

Honum hefur vegnað vel í viðskiptalífinu hið ytra en þar til fyrir ári var hann aðstoðarforstjóri fjölmiðlasamsteypunnar Time Warner. „Ég lendi í raun í viðskiptum, ég ætlaði aldrei í þau en ég byrja að sýsla í þeim og vegnar ágætlega,“ segir hann. Hann viðurkenni að mörgum hafi komið spánskt fyrir sjónir að viðskiptamaður skyldi þeysast fram á ritvöllinn og að einhverjir hafi viðrað þá skoðun að viðskipti og listir væru undarleg samblanda. Hann segist ekki hafa tekið slík ummæli inn á sig á seinni stigum en fyrst um sinn gat hann tekið þau nærri sér. „Þegar ég var yngri gat fokið í mann og maður orðið sár en þetta hafði engin langvarandi áhrif,“ segir hann. 

Eftir að Slóð fiðrildanna kom út árið 1999 virtust efasemdaraddir um að hann ætti erindi í bókabransann þagna að mestu leyti. „Fram að henni höfðu verið skiptar skoðanir um bækur mínar og höfundinn en það varð almennari sátt eftir hana,“ segir Ólafur. „Þetta er bók sem ég er afar sáttur við.“

Bókin hefur komið út á yfir 20 tungumálum og hefur Ólafur flett í bókinni í kringum þýðingarnar en hann les verkin sín venjulega ekki eftir útgáfu. „Ég er voðalega lítið fyrir að lifa á því sem ég er búinn að gera, ég fæ ekkert út úr því. Það er engin hógværð heldur frekar að mér finnist ég þurfa að gera eitthvað nýtt.“

„Pabbi segir F-orðið í símann“

Ólafur Jóhann og Anna eiginkona hans eiga þrjú börn. Þau kynntust í Vesturbæjarlaug í sumarfríi á Íslandi 1983. Hann segir að börnin þeirra hafi ekki erft óþekktargenið. Þó hafi elsti sonur hans, Óli, verið nokkuð fyrirferðarmikill á yngri árum. „Það var talað um að setja hann á rítalín en við tókum fyrir það. Ef þetta hefði verið til þegar ég var ungur hefði ég verið sprautaður niður daglega,“ segir hann og hlær.

Í eina skiptið sem hann hefur hins vegar þurft að mæta á fund skólastjóra vegna barnanna sinna var þegar Árni yngri sonurinn var sex ára. „Hann situr þá skömmustulegur á kolli og drúpir höfði og kennarinn segir að hann hafi sagt ofboðslega ljótt orð sem ekki má nota í skólanum, þá er það F-orðið,“ segir Ólafur kíminn. „Ég átti erfitt með að stilla mig.“ Inntur eftir svörum um það hvar hann hafði lært orðið svaraði drengurinn um hæl. „Pabbi segir þetta alltaf í símann!“ 

„Þarna komst sko upp mig mig. Mér fannst reyndar mjög gott að hann tæki það fram að ég segði þetta í símann,“ hlær Ólafur. „Pabbi var líka mjög góður í að hnýta saman blótsyrðunum. Þetta eru áhersluorð í tungumálinu. Ég get kennt pabba um þetta.“

Ólafur er sem fyrr segir á Íslandi til að fylgja eftir bók sinni sem nefnist Innflytjandinn og fjallar um menningarárekstra múslima á Íslandi. „Mér finnst alltaf gaman að fylgja nýrri bók úr hlaði og þegar maður kemur heim hittir maður fólk sem maður hefur þekkt lengi og kynnist nýjum. Ég hef gaman að því að hitta fólk og á orðið marga vini í þessum bransa.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Ólaf Jóhann í þættinum Segðu mér og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Menningarárekstrar múslima á Íslandi

Bókmenntir

„Við verðum að styrkja listamenn“