Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Hefði haldið að lífsgæði skiptu meira máli“

08.08.2017 - 10:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar í Reykjanesbæ fundu fyrir mengun frá verksmiðju United Silicon um liðna helgi. Vegna bilunar í ofni verksmiðjunnar er hann á lægra álagi en æskilegt er og af því hlýst lyktamengun. Íbúi í nágrenni við verksmiðjuna segir löngu komið nóg.

Ofn verksmiðjunnar var á lægra álagi en æskilegt er frá því seinni partinn á sunnudag og fram á mánudag, að sögn Kristleifs Andréssonar, umhverfis- og öryggisstjóra verksmiðjunnar. „Það eru vandræði með að ná jafnvægi í rafskautum og því hefur ofninn verður keyrður á lægra álagi,“ segir hann.

Rannsóknir Umhverfisstofnunar hafa sýnt að meiri lyktamengun berst frá verksmiðjunni þegar ofninn er á lægra hitastigi. Ekki hefur verið komist fyrir vandann með rafskautin. „Það eru allir á fullu við að laga þetta. Menn eru að vonast til að það gerist á hverri stundu. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að laga með verkfærum, heldur þarf að handstýra búnaðinum til að ná þarna jafnvægi,“ segir Kristleifur.

Fann mun á heilsunni við heimkomu

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í samtökunum Andstæðingar stóriðju í Helguvík, og íbúi við Melteig í Reykjanesbæ, segir mengun frá verksmiðjunni skerða lífsgæði íbúa í nágrenninu. „Þessi verksmiðja ætti að vera löngu búin að missa starfsleyfið enda er marg oft búið að brjóta það. Ég skil þetta ekki. Ég hefði haldið að lífsgæði skiptu meira máli,“ segir hún.

Ragnhildur er viðkvæm í lungum og kveðst hafa fundið mun á sér, til hins verra, eftir að verksmiðjan tók til starfa í nóvember á síðasta ári. „Ég loka alltaf hurðum og gluggum þegar lyktin er sem verst.“ Hún kom í gær úr tólf daga ferðalagi og kveðst hafa liðið ágætlega í hálsinum á meðan á því stóð. „Svo þegar ég vaknaði heima í morgun fann ég fyrir miklum kverkaskít og þurrki í munni. Þetta var eins þegar ég fór til Noregs í tvær vikur fyrr í sumar. Þar leið mér mun betur en fann svo aftur fyrir einkennum þegar ég kom heim.“

Safna upplýsingum um fjárfesta í stóriðjunni

United Silicon starfrækir einn ofn í Helguvík en langtíma áætlanir fyrirtækisins er á þann veg að ofnarnir verði fjórir. Þá hefur fyrirtækið Thorsil fengið starfsleyfi til að starfrækja kísilverksmiðju á svæðinu, við hlið United Silicon. Gangi áætlanir Thorsil eftir eftir verða ofnar fyrirtækisins í Helguvík fjórir. Stjórn Andstæðinga stóriðju í Helguvík safnar nú upplýsingum um það hvaða fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjárfesta í uppbyggingu stóriðju. „Ég er ekki tilbúin í að minn lífeyrir sé notaður til að fjármagna svona starfsemi og kem til með að færa mig á milli sjóða verði niðurstaðan sú að mínir sjóðir fjárfesti í þessu. Við í stjórninni erum að skoða allar hliðar á þessu máli. Það er allt undir,“ segir Ragnhildur.