Hefði átt að gúggla betur

30.03.2015 - 20:04
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina, viðurkenndi í Kasljósi kvöldsins að það hefðu verið mistök af hennar hálfu að skipa Gústaf Níelsson sem varamann í mannréttindaráði borgarinnar.

„Ég hefði átt að gúggla betur, ég hefði átt að skoða betur forsendur og hvað hann hefði verið að skrifa,“ sagði hún. Sveinbjörg sagðist ekki hafa skipað Gústaf vegna andstöðu hans við múslima og sagði að slík viðhorf endurspegluðu ekki sínar skoðanir.

Máli löngu afgreitt

Hún sagði að málið væri löngu afgreitt í huga Framsóknarmanna. „Við tækluðum málið með afgerandi hætti morguninn eftir þegar við drógum skipan hans til baka,“ segir hún. Aðspurð hvers vegna Framsókn og flugvallarvinir hefðu skipað Gústaf varamann í mannréttindaráð sagði hún að í stjórnarsáttmála meirihlutans í borginni segði að sem flestar raddir ættu að heyrast. Eftir að skipanin hafði verið afturkölluð sagðist hún ekki hafa vitað af viðhorfum Gústafs til samkynhneigðra en nefndi ekki afstöðu hans til múslima.

Þótti spurningar hans áleitnar

Hún sagði í Kastljósi í kvöld að sér hefði þótt Gústaf velta upp áleitnum spurningum í greinum sem hann hefði skrifað í Morgunblaðið. „Mér fannst hann einmitt ekki fella neina dóma heldur spyrja spurninga.“ Það sé einmitt eitt af hluverkum stjórnarandstöðunnar, að veita meirihlutanum aðhald.
„En þetta var vanhugsað og stundum gera stjórnmálamenn hluti sem eru vanhugsaðir. Ég gerði það þarna og ég hef borið ábyrgð á því með því að afturkalla stöðuna.“

Kemur ekki til greina að samþykkja sádí-arabískt fjármagn

Aðspurð hvað henni finnist um að félag múslima fengi fjárveitingar, 130 milljónir króna, frá Sádí Arabíu til þess að fjármagna mosku segist hún mótfallin því og vísaði til stöðunnar í nágrannalöndunum. Tekið hafi verið fyrir þetta í Noregi og önnur ríki, svo sem Danmörk, hefðu átt í erfiðleikum með að rekja uppruna peninga sem komu til landsins með þessum hætti. Hún segir að alltaf hafi legið í loftinu að félag múslima gæti ekki fjármagnað sig innanlands. Henni fyndist þó ekki koma til greina að lífskoðunar- og trúfélög og stjórnmálaflokkar taki við peningum frá löndum sem virði ekki lýðræði, mannréttindi og kvenfrelsi. Hún segir að það gæti verið ráðlegt að setja lög sem banni trúfélögum, lífsskoðunarfélögum, stjórnmálaflokkum og fjölmiðlum að taka við slíku fjármagni. „Við erum svo lítil og það er svo auðvelt að hafa áhrif á okkur með fjármagni,“ sagði hún.

Þarf ekki lóð fyrir byggingu með útlitseinkennum

Það er enn hennar persónulega skoðun að ekki ætti að veita félagi múslima lóð til þess að þeir geti byggt mosku. Það séu þegar tvö bænahús múslima í landinu og trúfrelsi sé virt. Það þurfi ekki að útdeila lóð fyrir byggingu á borð við Mosku sem hefði ákveðin útlitseinkenni. Þá segir hún að ekki sé hægt að bera stöðu Þjóðkirjunnar saman við stöðu annarra trúfélaga. Lög um kristnisjóð kveði á um að sveitarfélög gefi lóðir undir kirkjur og prestbústaði en þau gildi ekki um önnur trúfélög. Það séu 40 trúar- og lífsskoðunarfélög í landinu og því þyrfti að útdeila mjög mörgum lóðum ef hvert félag vildi reisa sér húsnæði í hverju einasta sveitarfélagi.

„Í hvernig samfélagi viljum við búa?“

Hún nefndi að það fólk þyrfti að íhuga í hvers konar samfélagi það vildi búa í og hvernig við viljum vernda það. Aðspurð hvort hún telji ógn standa af múslimum segist hún ekki þeirrar skoðunar. „Ég er ekki á móti múslimum en ég er aftur á móti á móti því hvernig réttindi samkynhneigðra og réttindi kvenna eru gerð að engu eða eru ekki til hjá ákveðnum hópum múslima.“ Hún segist vera alin upp vestur á fjörðum og svo í Reykjavík, alin upp við að hér sé gott að búa og það eigi að vernda það góða við íslenskt samfélag. Hún segir að ekki sé hægt að leggja hennar persónulegu skoðanir og stefnu Framsóknar og flugvallarvina að jöfnu. „Daginn eftir að ég ræddi við Vísi um moskuna, fór Guðfinna í viðtal og sagðist vera ósammála mér. Þetta var ekki stefna Framsóknar, þetta var vegna míns reynsluleysis, ég var búin að vera oddviti í fjórar vikur en maður lifir og lærir,“ sagði hún og bætir við að enginn hafi talað við hana um málið, henni hefðu bara verið lögð orð í munn.

„Ég tala tæpitungulaust um það sem mér finnst. Mín persónulega skoðun er sú að það eigi að draga lóðarúthlutunina til baka en það er ekki stefna Framsóknarflokksins. Hann styður mannréttindi og trúfrelsi,“ sagði hún að lokum.

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi