Heba Þórisdóttir tilnefnd til Critics' Choice-verðlauna

11.12.2019 - 00:11
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Heba Þórisdóttir förðunarfræðingur er tilnefnd til Critics' Choice-verðlaunanna fyrir hár og förðun ársins í kvikmynd leikstjórans Quentins Tarantinos; Once Upon a Time in Hollywood. Verðlaunin verða veitt 12. janúar.

Tilnefningarnar voru kunngerðar á sunnudaginn. Critics' Choice-verðlaunin eru veitt árlega og verður þetta í 25. sinn. Þau þykja gefa góða vísbendingu um tilnefningar til Óskarsverðlaunanna.

Heba og Hildur tilnefndar 

Heba og Janine Rath-Thomson eru tilnefndar fyrir förðun og hár í mynd Tarantinos. Auk myndarinnar Once Upon a Time in Hollywood eru eftirtaldar kvikmyndir tilnefndar í flokknum:

  • Bombshell
  • Dolemite Is My Name
  • The Irishman
  • Joker
  • Judy
  • Rocketman

Hildur Guðnadóttir tónskáld er einnig tilnefnd til verðlaunanna fyrir bestu frumsömdu tónlistina í kvikmyndinni um Jókerinn. Hildur hefur einnig verið tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna í sama flokki.

Fer sjálf með lítið hlutverk í myndinni

Heba flutti til Bandaríkjanna fyrir rúmum tuttugu árum og hefur síðan þá unnið með þónokkrum stórstjörnum. Hún hefur unnið með Tarantino frá árinu 2001 og lýsir samstarfinu sem góðu í viðtali í þættinum Tala saman á Útvarp 101.

Kvikmyndin Once Upon a Time in Hollywood gerist árið 1969 og fjallar um vináttu og samstarf leikara og áhættuleikara í Hollywood og það sem á vegi þeirra verður. Stórstjörnur á borð við Margot Robbie og Brad Pitt fara með hlutverk í myndinni. 

Hebu sjálfri bregður fyrir í kvikmyndinni, og hún fer með nokkrar línur, þá í hlutverki förðunarfræðingsins Sonyu. Í samtali við Útvarp 101 segir hún það aldrei hafa staðið til að vera fyrir framan myndavélina en þetta sé ábyggilega skemmtilegast fyrir barnabörnin hennar.