Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hátt í 600 beiðnir um aðstoð

11.12.2019 - 08:17
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbjörg
Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa borist hátt í 600 beiðnir um aðstoð. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að beiðnir séu enn að berast. Þá hafa aðgerðastöðvar verið virkjaðar á Austurlandi en þar verður hríðarveður áfram langt fram eftir degi.

Beiðnir um aðstoð á Vesturlandi og Suðvesturlandi hættu að berast í kringum miðnætti. Aftur á móti hafa verið að koma inn beiðnir um aðstoð á Norðurlandi, Skagafirði og í Vestmannaeyjum í alla nótt.  Þetta hefur verið í tengslum við foktjón en líka aðstoð við að koma rafmagni aftur á og aðstoð við starfsfólk á heilbrigðisstofnunum og í raforkugeiranum við að komast til og frá vinnu. Þá hefur þurft að bæta í mannskap á Ólafsfirði og huga að bátum í höfnum í Vestmannaeyjum. Davíð segir aðstoðarbeiðnir enn að berast en engin slys hafa orðið á fólki. 

„Verkefnunum hefur fjölgað svolítið og það má segja að það séu allavega um 150 ný verkefni sem hafa borist björgunarsveitum í nótt.“

Hann segir að í langflestum tilfellum hafi gengið vel að sinna verkefnum. „Þá er jákvætt að aðgerðum er lokið á Suðurnesjum og Selfossi þar sem rigndi inn verkefnum bókstaflega í kringum miðnætti en á Norðurlandi hefur þurft að kalla út frekari mannskap af því að verkefnin hafa enn verið mörg þar en allt er þetta ennþá viðráðanlegt en það bætir ekki úr skák rafmagnsleysi á Norðurlandi, það gerir allt aðeins flóknara.“

Engar tilkynningar hafa borist um meiðsl á fólki og þá virðist almenningur hafa viðvörunum alvarlega því lítið hefur þurft að bjarga fólki úr ógöngum.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV