Í kvöld keppir Ísland til úrslita i fyrsta skipti í fimm ár. Mikil spenna og eftirvænting hefur verið fyrir Hatara í undanfara keppninnar og hafa bæði pólitískar yfirlýsingar og djarfur klæðnaður gjörningarhópsins vakið athygli. Þá er langt síðan Íslandi hefur verið spáð jafn góðu gengi af veðbönkum en lagið hefur að undanförnu haldist innan tíu efstu sæta veðbanka. Þegar þetta er ritað vermir Hatari sjötta sæti veðbanka en lagið sat í gær í áttunda sæti og hefur því skotist upp um tvö sæti í nótt. Langflestir spá hinum hollenska Duncan Laurence með lagið Arcade sigri. Önnur lönd sem sitja ofarlega á lista eru Svíþjóð, Ástralía, Rússland, Ítalía og Sviss.
Í gær var dómararennsli úrslitakeppninnar. Þá horfðu dómnefndir allra keppnislanda á öll atriðin og gáfu þeim stig. Sem fyrr gilda atkvæði dómnefndarinnar helming á móti símaatkvæðium almennings og því jafn mikilvægt að dómararennslið gangi vel líkt og flutningur kvöldsins.
Bein útsending frá úrslitakeppni Eurovision hefst kl. 19:00 á RÚV og RÚV.is. Útsendingin er sýnd á sama tíma á RÚV 2 á ensku. Þulur er Gísli Marteinn Baldursson. Íslendingar í útlöndum geta horft á útsendingu RÚV á RÚV.is.