Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hatari heimtir alla

Mynd með færslu
 Mynd: Svikamylla ehf

Hatari heimtir alla

21.02.2020 - 11:19

Höfundar

Neyslutrans er fyrsta plata Hatara í fullri lengd. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Enginn, og þá síst Hatari, átti von á að vegferð þeirra myndi verða með þeim hætti sem hún hefur orðið. Evróputúr framundan og það sem byrjaði sem eitthvað Soundcloud-flipp orðið að alvöru hljómsveit sem nýtur hylli og aðdáunar. Hatari á nú ansi athyglisverðan feril, þrátt fyrir stuttan líftíma. Meðlimir mildraddaðir sendiherrasynir en á sviði leðurklædd ofsamenni. Evróvisjónfarar sem stóðu með réttlætinu alla leið. Hugsjónamenn, hugmyndasmiðir og tónlistarhöfundar sem fengu venjulega Íslendinga til að klæða sig í sadó-masóföt. Já, þetta er allt saman frekar ótrúlegt.
En getur sveitin staðið undir sér sem hljómsveit, tónlistarframleiðendur? Hvernig reiðir þeim af hér, á Neyslutransi, sem er breiðskífa, samkvæmt gamalkunnugri forskrift tónlistariðnaðarins? Svarið er, bara býsna vel.

Dúndur

Platan dúndrast af stað með „Engin miskunn“. Tónlistin ekki í ósvipuðu sniði og „Hatrið mun sigra“. Kalt, „industrial“ og mjög svo evrópskt teknó með skírskotun í níunda áratuginn. Nitzer Ebb, Deutsch Amerikanische Freundschaft, Mute merkið, Black Celebration með Depeche Mode, síðustu verk Soft Cell. Þessi rammi, meira og minna. Matthías Tryggvi öskrar sínar línur af aðdáunarverðum krafti, maður er hissa á að fá ekki skyrpið yfir sig þegar lagið er í gangi. Klemens Hannigan syngur blíðlega, andstæða Matthíasar, og tekur að sér hlutverk þrælsins, bæði í „Klámstrákur“ og „Þræll“. Platan rúllar nokkuð örugglega fyrsta kastið, grimm lög og mýkri í bland en öll í svona myrkum, áleitnum stíl. „Klefi/صامد“ sem var unnið með hinum palestínska Bashar Murad er snilld (og gaman að orð eins og „skrumskæling“ fari sem víðast). Cyber koma sem gestir í „Hlauptu“ og það eru helst þessi gestalög sem mér finnst ekki takast nægilega vel upp. Líkt má segja um innkomu Svarta Laxness í „Helvíti“ og GDRN í „Niðurlút“. Tvær ósungnar stemmur, af klassísku kyni, brjóta plötuna svo skemmtilega upp.

Stemning

Þessi gestakvörtun er það eina sem ég er með haldbært af þeim toganum. Að öðru leyti ná Hatari að keyra stemninguna vel í gegn og það er árangur, enda platan 50 mínútur. Textalega eru menningarlegar og pólitískar tilvísanir hér í unnvörpum og persónulega fagna ég skotum á eitraðan kapítalisma, efnishyggju og mér finnst aukinheldur dásamlegt hvernig jaðarsettir hópar af ýmsum gerðum hafa verið settir í sviðljósið fyrir tilstuðlan Hatara. Klárir strákar, sem eru búnir að standa sig vel og hafa gengið glæsilega fram af fólki með list sinni. Nema auðvitað Íslendingum, sem fíla þetta bara í botn og setja hlæjandi upp gimp-grímur. Hvílík þjóð...

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hatari - Neyslutrans