Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hatari fór yfir strikið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hatari fór yfir strikið

18.05.2019 - 12:57

Höfundar

Ummæli Hatara um hernám Ísraela fóru illa í marga og var hljómsveitin tekin á teppið af Jon Ola Sand framkvæmdastjóra Eurovision. Þeir ræða málið í nýju viðtali við sænska ríkissjónvarpið.

Sand sagði þá félaga hafa gengið of langt með framgöngu sinni. Keppnin eigi að vera ópólitísk og þátttakendum meinað að viðra pólitískar skoðanir. Hatari hefur frá upphafi verið afar pólitískur í afstöðu sinni, meðal annars skrifuðu meðlimir sveitarinnar á undirskriftalista þar sem því var mótmælt að keppnin væri haldin í Tel Aviv í Ísrael.

„Okkur var tjáð að það væru takmörk á því hvað við mættum segja og við hefðum farið yfir strikið. Við höfum rætt um keppnina á pólitískum nótum frá upphafi og vitum ekki enn hvenær við gengum of langt,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson í viðtali við sænska ríkissjónvarpið.

„Mörkin milli hins pólitíska og ópólitíska eru ósýnileg. Enginn veit hvar þau eru. Það er erfitt að fylgja reglum sem enginn veit hverjar eru eða hvernig þeim skuli vera beitt. Boðskapur okkar er ekki fjandsamlegur. Við viljum frið og samstöðu.“

„Ég held að við munum bera sigur úr býtum og þegar við gerum það mun kapítalisminn riða til falls,“ segir Klemens Nikulásson Hannigan. „Við höfum séð margt ótrúlegt hér. Við sóttum heim Bethlehem og Hebron og ræddum við íbúa þar.“

Hatari lýsti því yfir fyrir skömmu að þeir væru vongóðir um að hernám Ísraela tæki enda von bráðar og voru kallaðir á fund framkvæmdastjórans. Sand hefur sagt að Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva séu vongóð um að meðlimir Hatara geri sér grein fyrir ópólitísku eðli Eurovision og að þeir virði reglurnar. Hljómsveitin telur þær þversagnarkenndar.

„Tel Aviv er skýlt fyrir umheiminum og að halda keppnina hér er afar pólitískt í eðli sínu, að syngja um ást án þess að horfast í augu við raunveruleikann og pólitískt eðli keppninnar,“ segir Matthías að lokum.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Fólk tengir Ísrael núna við gleði og gaman“

Tónlist

„Við tjáum okkur ekki um lokaútspilið“

Tónlist

Þökkuðu Dominos og Deutsche Bank stuðninginn

Popptónlist

Hatari óttast að ganga of langt