Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Harvey Weinstein dæmdur í 23 ára fangelsi

11.03.2020 - 15:11
epa08235828 Harvey Weinstein departs New York State Supreme Court following a fourth day of jury deliberation in his sexual assault trial in New York, New York, USA, 20 February 2020.The case against Weinstein is based on sexual assault and rape allegations of two separate women, and Weinstein could face life in prison if convicted.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríski kvikmyndaframleiðandinn og leikstjórinn Harvey Weinstein var í dag dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir nauðgun og annað kynferðisofbeldi gegn nokkrum konum. Hann var sakfelldur fyrir afbrotin í síðasta mánuði.

Það tók kviðdóm í málinu gegn Weinstein fimm daga að komast að niðurstöðu. Hann var á endanum sakfelldur fyrir brot gegn tveimur konum, en sýknaður af alvarlegustu ákærunum. Þær hefðu getað leitt til þess að hann sæti bak við lás og slá til æviloka.

Verjendur Weinsteins fóru fram á að hann yrði einungis dæmdur til lágmarksrefsingar, það er fimm ára fangelsisvistar. Skjólstæðingur þeirra væri orðinn sextíu og sjö ára og heilsuveill. Það kynni að ríða honum að fullu að þurfa að sitja lengur í fangelsi. Fimm ár væru sem ævilangt fangelsi fyrir hann. Saksóknarar fóru fram á hámarksrefsingu.

Tugir kvenna stigu fram fyrir nokkrum árum og sökuðu Harvey Weinstein um margvísleg kynferðisbrot gegn þeim, þar á meðal nauðgun. Vitnisburður þeirra er talinn hafa hrundið af stað #metoo-hreyfingunni, sem varð til þess að fjölmargir karlmenn í háum stöðum voru bornir þungum sökum um kynferðisofbeldi gegn konum.

Harvey Weinstein á yfir höfði sér enn frekari réttarhöld fyrir dómstóli í Los Angeles fyrir nauðgun og kynferðisofbeldi.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV