Hart deilt á höfuðstöðvar Landsbankans

22.07.2015 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn
Formaður efnahags-og viðskiptanefndar, bæjarstjóri Kópavogs og bæjarráð Vestmannaeyja ásamt tveimur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru meðal þeirra sem hafa blandað sér í umræðuna um fyrirhugaðar framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á besta stað í miðborg Reykjavíkur.

Kostnaðurinn við byggingu hússins með lóðarkaupum er um 8 milljarðar. Höfuðstöðvarnar eiga að vera 14.500 fermetrar en til samanburðar má nefna að höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúni eru 8.200 fermetrar. Íslandsbanki ætlar að byggja um 7 þúsund fermetra við núverandi höfuðstöðvar - höfuðstöðvar bankans yrðu þá 15 þúsund fermetrar.

Bankastjóri Landsbankans hefur sagt að með þessum nýju höfuðstöðvum spari bankinn um 700 milljónir á ári. Bankinn búi við aðstæður sem séu óviðeigandi, hann sé á mörgum stöðum í Kvosinni í Reykjavík og borgi víða háa leigu þannig að hrein sóun sé í gangi.  

Elín Hirst og Guðlaugur Þór Þórðarson, bæði þingmenn Sjálfstæðisflokksins, riðu á vaðið í gagnrýni á þessa ákvörðun bankans.  Elín sagði bankann frekar eiga að bjóða betri kjör en að byggja á dýrasta stað í miðborginni.  Guðlaugur Þór sagði að þarna væri verið að fara illa með eignir ríkisins en enginn gæti gert neitt í því.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, bættist fljótlega í þennan hóp þingmanna. Á Facebook-síðu sinni benti þingmaðurinn á nýtt skrifstofuhúsnæði við Urðarhvarf í Kópavogi - Landsbankinn gæti sparað sér 5 milljarða með því að kaupa það.

Frosti hefur áður gagnrýnt fyrirhugaðar framkvæmdir bankans við Austurhöfn. Í grein sem þingmaðurinn skrifaði í mars á þessu ári spurði hann hvort hagræðingin gæti ekki orðið enn meiri ef byggt væri hóflegt skrifstofuhúsnæði á hagkvæmri lóð. „Kostnaðarauki vegna staðarvalsins mun lenda á viðskiptavinum bankans með einum eða öðrum hætti, hvort sem er í gegnum hærri vexti á lánum, með hærri þjónustugjöldum eða með hærri sköttum.“

Málið tók óvæntan snúning þegar Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, skrifaði Landsbankanum bréf þar sem hann bauð höfuðstöðvar bankans velkomnar til bæjarins.  „Ég benti Landsbankanum á að við eigum talsvert land á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, það er að segja á Glaðheimasvæðinu, rétt hjá Smáralind,“ sagði Ármann í samtali við Fréttablaðið. 

Í gær vakti bæjarráð Vestmannaeyja síðan máls á því að ákvörðun bankaráðs Landsbankans hefði ekki komið til formlegrar afgreiðslu á hluthafafundi heldur „hyggst bankaráð eitt og sjálft taka slíka ákvörðun.“ Bæjarráð fól Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, að óska þegar eftir hluthafafundi í Landsbankanum vegna þessa og kalla þar eftir frekari rökstuðningi.

Meðal þeirra sem hafa hrósað Elliða og bæjarráði Vestmannaeyja fyrir þetta eru áðurnefnd Elín og Guðlaugur Þór - Elín segir á Facebook-síðu Elliða að þessu máli verði að halda til streitu.

Guðlaugur Þór gefur lítið fyrir rök Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, á mbl.is um að miðbærinn sé eini kosturinn ef ætlunin sé að vera þar sem viðskipti eru fyrst og fremst stunduð. „Með fullri virðingu - þessi rök halda ekki,“ skrifar Guðlaugur.

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir á sinni Facebook-síðu: „Það væri ómöguleiki að ráðast í svona stóra fjárfestingu án hluthafafundar hjá fyrirtækjum á almennum markaði - vel gert hjá bæjarstjóra Vestmannaeyja.“

Flokkssystir hennar, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, spyr á bloggsvæði sínu hvort Landsbankinn þurfi á fjármálaráðgjöf að halda. „Einhvern veginn efast ég um það að fjármálaráðgjafi sem væri að vinna vinnuna sína myndi ráðleggja fyrirtæki sem gæti sparað verulegar fjárhæðir á ári við það að sameina reksturinn á einn stað myndi ráðleggja viðkomandi fyrirtæki að byggja glæsihýsi á dýrasta staðnum í bænum.“ 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi