Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Harmur mæðra sem missa barn hefur áhrif á lífslengd

20.11.2019 - 09:58
Mynd: Gölin Doorneweerd - Swijnenburg / Freeimages
Ótímabær dauðsföll eru mun algengari meðal kvenna sem misst hafa barn en annarra kvenna. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar sem nær til allra foreldra á Íslandi síðustu tvær aldir. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, ræddu niðurstöður rannsóknarinnar í Morgunútvarpinu á rás tvö í morgun.

Heilsufarsleg áhrif á konur alla tíð

Rannsóknin var birt í nýjasta hefti vísindatímaritsins eLife sem kom út í vikunni. Rannsóknin nær til allra foreldra á Íslandi síðusut tvær aldir. Við rannsóknina nýtti hópurinn ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar. Meginniðurstöðurnar byggjast á samanburði á dánartíðni tæplega 48 þúsund foreldra sem misstu barn á  tímabilinu og um 126 þúsund systkina þeirra sem ekki upplifðu slíkan harmleik.

Niðurstöður leiddu í ljós að  tengsl væru á milli andláts barns og aukinnar hættu á ótímabæru andláti móður, en þar er miðað við andlát fyrir fimmtíu ára aldur. Sams konar tengsl fundust ekki hjá feðrum. 

Aukin tíðni ótímabærra andláta mæðra eftir barnsmissi var merkjanleg yfir allt tveggja alda tímabil rannsóknarinnar en var nokkuð breytileg eftir skeiðum. Þannig reyndust ótímabær andlát mæðra sem fæddar voru 1800-1930 aukast um 35% eftir barnsmissi en 64% meðal mæðra sem fæddar eru eftir 1930.

Ekki hægt að brynja sig gegn barnamissi

Að sögn Kára sanna niðurstöður að harmur kvenna sem misst hafa barn sitt hafi töluverð áhrif á lífslengd þeirra, og sú hafi verið raunin alla tíð. 

„Ef við skoðum ástandið í íslensku samfélagi upp úr miðri síðustu öld þá er ungbarnadauði hér algengari en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Það er mesti ungbarnadauði sem skráður hefur verið.“

Félagsfræðingar hafi sett fram þá kenningu að konu hafi brugðist við ungbarnadauðanum með því að brynja sig, með því að minnka tilfinningaleg tengsl við börnin sín. „En staðreyndin er sú að það er bara vitleysa. Konur á þessum tíma urðu fyrir jafn miklum áföllum þegar börnin þeirra dóu, það hafði jafn mikil áhrif á lífslengd þeirra, eins og það hefur í dag. sem bendir til þess að þessu sterku tilfinningatengsl mæðra við börnin sín séu meðfædd,“ segir Kári.

Konan geti ekki komið í veg fyrir áhrifin með að brynja sig, líkt og haldið hafi verið fram. Unnur segir að lýsingar á dauðsföllum innan fjölskyldna úr dagbókarfærslum á 19. öld séu oft frekar hversdagslegar. Þá hafi jafnframt ríflega helmingur foreldra upplifað það að missa barn sitt. „Það hefur skapað deilur á milli ólíkra sagnfræðing sem rýna í þessar færslur og sumir telja að það sé merki um það að fólk hafi ekki þjáðst - en þessar niðurstöður benda til þess að það hafi verið þjáning á þessum tíma.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar.

Nauðsynlegt að fylgja þessum einstaklingum eftir

Kári segir niðurstöðurnar í senn fallegar og sorglegar. Engan lærdóm sé hægt að draga af því þegar barn deyr. 

„Þetta er atburður sem fylgir slíkur harmur að við það verður ekkert ráðið og ég held því fram að tilraunir til að sannfæra mæður um að þetta sé allt i lagi, að barnið dó, sé bara út í hött. Þú getur ekkert læknað þetta. Það er enginn plástur til sem nær utan um þetta. Þetta er það sorglegasta sem getur gerst í lífi manneskju.“

Unnur bætir við að sorgin sé vissulega eðlileg viðbrögð við slíkum atburði. Þetta sé það erfiðasta sem foreldri geti gengið í gegnum „En þessar niðurstöður lyfta því hvað það eru rosalega sterkar heilsufarslegar afleiðingar af þessu og okkur ber sem samfélag, bæði vísindamönnum og fólki í heilbrigðiskerfinu, að koma i veg fyrir þjáningar fólks og þetta er enn ein vísbendingin um það að það þarf að fylgja þessum einstaklingum eftir. Við erum að skoða mjög harða heilsufarsútkomu sem er dauði - en á bak við þann ísjaka er heilmikið af þjáningu og sjúkdómum. “

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í læknisfræði.
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV