Harma bókun bæjarstjórnar og biðjast afsökunar

03.12.2019 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri Seltjarnarness harmar þá bókun sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundi Seltjarnarness í seinstu viku og biður kennara og skólastjórnendur afsökunnar. Fundað var um málið í dag og sátu fulltrúar bæjarstjórnar, skólastjórnendur og kennarar fundinn ásamt formanni Skólastjórafélagsins.

Ásgerður segir í samtali við fréttastofu  að ekki hafi verið rétt staðið að málinu og harmar framvindu þess. Meirihluti bæjarstjórnar hefur beðist afsökunar á bókun sem lögð var fram í seinustu viku á fundi bæjarstjórnarinnar.

„Bæjarfulltrúar Sjáfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi harma þann misskilning sem orðið hefur vegna bókunar á síðasta bæjarstjórnarfundi, meðal kennara og bæjarbúa þar sem skilja mátti að vegið væri að kennurum vegna vinnu þeirra við námsmat síðast liðið vor. Meirihlutinn biðst afsökunar á því og vill árétta fullt traust við skólastjórnendur og kennara við Grunnskóla Seltjarnarness og um leið ánægju með gott starf í skólanum til fjölda ára. Ekki var rétt, í fyrri bókun okkar  að  vísa til tilfinningalegs tjóns  og afleiðinga því valdandi og drögum við þá fullyrðingu til baka.“ segir í tilkynningu frá meirihluta bæjarstjórnar.

Felldu niður kennslu 

Kennarar í Valhúsaskóla felldu niður kennslu í sjöunda til tíunda bekk í gær vegna óánægju með framgöngu kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn. Meirihlutinn í bæjarstjórn bað nemendur í tíunda bekk sem útskrifuðu síðasta vor, og foreldra þeirra, afsökunar á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.  Fulltrúi Viðreisnar/Neslista í skólanefnd sagði að skólinn hefði fengið falleinkunn. 

Þetta hleypti illu blóði í kennara og stjórnendur. Í bréfi til foreldra segir að kennurum og stjórnendum þyki freklega að sér vegið og treysti sér ekki til að taka á móti nemendum. Því  var ákveðið að fella niður kennslu í allan gærdag. 

Foreldrar kvörtuðu undan námsmati í vor og voru ósáttir við viðbrögð skólans. Úr varð að utanaðkomandi skólakennari var fenginn til að taka saman greinargerð um námsmat í skólanum og gagnrýni á það. Niðurstaðan var sú að ýmislegt þyrfti að bæta, bæði í námsmati og upplýsingagjöf. 

Greinargerð opinberuð á morgun

Ásgerður segir að unnið sé úr þeim ábendingum sem skólanum barst í vor um hvað megi betur fara. Á morgun verði gerð opinber greinargerð um námsmatið sem tekið var saman að ósk bæjarins á heimasíðu bæjarins.

Í tilkynningu meirihluta Sjálfstæðismanna kemur fram gagnrýni á fulltrúa Viðreisnar/Neslistans í bæjarstjórn.

„Það er makalaust að fulltrúi Viðreisnar/Neslistans, Karl Pétur Jónsson, geti talað um að útskriftarnemendur Grunnskóla Seltjarnarness hafi verið settir í einhverja stöðu síðastliðið vor.  Karl Pétur hefur greinilega ekki hugmynd um einkunnarstöðu Grunnskóla Seltjarnarness.“ segir í tilkynningunni.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi