Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Haraldur Noregskonungur áfram á sjúkrahúsi

11.01.2020 - 02:29
epaselect epa05107007 Norway's King Harald (R) and Queen Sonja(L) attend gala performance in Oslo, 17 January 2016, to celebrate the 25th anniversary of King Harald's  ascension to the throne.  EPA/VEGARD WIVESTAD GROTT NORWAY OUT
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning við hátíðlega athöfn í janúar 2016, þegar 25 ár voru liðin frá krýningu Haralds Mynd: EPA - NTB SCANPIX
Haraldur Noregskonungur verður ekki útskrifaður af Ríkisspítalanum í Osló eins og vonir stóðu til, en nú er áætlað að hann fái að yfirgefa sjúkrahúsið í byrjun næstu viku.

Norska hirðin tilkynnti á miðvikudag að konungurinn hefði verið lagður inn á sjúkrahús vegna svima, en rannsóknir hefðu ekki leitt neinn alvarlegan sjúkdóm í ljós og því fengi hann að líkindum að fara heim fyrir helgina. Veikindin urðu meðal annars til þess að Haraldur gat ekki verið viðstaddur vígslu Johan Sverdrup-olíuvinnslusvæðisins á þriðjudag, eins og til stóð.

Í gær barst svo önnur tilkynning frá talsmanni norsku hirðarinnar þar sem fram kemur að konungur sé á batavegi, en verði ekki útskrifaður fyrr en í næstu viku. Hann fer svo í tveggja vikna veikindaleyfi í framhaldi af því og mun krónprinsinn Hákon gegna konunglegum skyldum hans á meðan. Haraldur V Noregskonungur er 82 ára gamall. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV