Haraldur komst á Áskorendamótaröðina

Mynd með færslu
 Mynd: GSÍ

Haraldur komst á Áskorendamótaröðina

09.10.2019 - 15:50
Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús verður á meðal keppenda í Áskorendamótaröð Evrópu í golfi á næsta ári. Hann fer því í hóp með Guðmundi Ágústi Kristjánssyni sem þegar hafði tryggt sér keppnisrétt á mótaröðinni.

Haraldur Franklín hefur spilað vel á Norðurlandamótaröðinni (e. Nordic Tour) í sumar og það er í gegnum hana sem hann tryggði sér sæti á Áskorendamótaröðinni. Haraldur er sem stendur í fjórða sæti á stigalista mótaraðarinnar en reglurnar á mótaröðinni eru þannig í ár að þeir sem eru í fimm efstu sætunum á stigalistanum vinna sér inn þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni. Þeir sem hafa unnið þrjú mót í ár eru þegar öruggir.

Ljóst er að Haraldur Franklín mun enda í einu af efstu fimm sætunum og er sæti hans á Áskorendamótaröðinni því tryggt. Hann fer þar með í hóp með Guðmundi Ágústi Kristjánssyni sem tryggði sér sætið í júlí er hann vann sitt þriðja mót á Norðurlandamótaröðinni.

Lokamót tímabilsins á Norðurlandamótaröðinni hófst í Eistlandi í dag þar sem Haraldur er á meðal keppenda ásamt Axel Bóassyni. Haraldur er í 6.-7. sæti á sex höggum undir pari eftir fyrsta hringinn en Axel er í 8.-13. sæti á fimm höggum undir pari.

Þrátt fyrir að vera komnir með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni eiga Haraldur og Guðmundur enn möguleika á að spila á Evrópumótaröðinni. Þeir eru báðir komnir á annað stig úrtökumóta af þremur fyrir Evrópumótaröðina en annað stigið hefst snemma í nóvember á Spáni.