Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Haraldur Johannessen hættir sem ríkislögreglustjóri

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Dögg Auðunsdóttir - RÚV
Haraldur Johannessen ætlar að hætta sem ríkislögreglustjóri um áramót. Hann hefur óskað eftir því við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að fá að láta af embætti frá og með næstu áramótum. Haraldur sendi samstarfsfélögum sínum bréf þess efnis nú í morgun.

Jafnfram hefur ráðherra óskað eftir því að Haraldur taki að sér sérstaka ráðgjöf á sviði löggæslumála eftir að hann hættir sem lögreglustjóri, sem m.a. lýtur að framtíðarskipulagi löggæslunnar.

Stígur sáttur frá borði

Haraldur segist stíga sáttur frá borði eftir að hafa gegnt þessu ábyrgðarmikla starfi í 22 ár. Nú þegar boðaðar eru breytingar á yfirstjórn lögreglumála í landinu telji hann rétt að hleypa að nýju fólki og segir að það sé sér ljúft og skylt að vera ráðherra í framhaldinu til ráðgjafar um framtíðarskipulag löggæslunnar.

Þótt margt hafi á viðburðaríka daga drifið hafi honum alla tíð verið hugleikið að efla lögregluna í landinu almenningi til heilla. Þar hafi hann meðal annars horft til skipulagsbreytinga sem gætu leitt til öflugri löggæslu. Hann telur eðlilegt að í fámennu samfélagi sé heillavænlegt og í raun óhjákvæmilegt að stefna að því að landið verði eitt löggæsluumdæmi, eitt embætti, einn lögreglustjóri. Það sé sú sýn sem hann hafi á skipan lögreglumála og sem hann telji að myndi stuðla að meiri skilvirkni í störfum lögreglunnar og betri nýtingu á því skattfé sem rennur til löggæslunnar í landinu.

Gekkst við misgjörðum sínum

Í lok október var greint frá því að Haraldur hefði gengist við misgjörðum sínum í samskiptum við Björn Jón Bragason rithöfund og Sigurð Kolbeinsson þáttastjórnanda á Hringbraut. Í bréfi til dómsmálaráðuneytisins áréttaði Haraldur að hann myndi gæta sín í framtíðinni. Af þeirri ástæðu og til að gæta meðalhófs ákvað ráðuneytið að áminna ekki Harald. 

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir því við dómsmálaráðuneytið að það útskýrði af hverju það áminnti ekki ríkislögreglustjóra þegar hann sendi tveimur fjölmiðlamönnum bréf til að andmæla umfjöllun þeirra um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Bréfin voru skrifuð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra.

Ámælisverð framganga

Dómsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í lok maí að framganga Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, hefði verið ámælisverð. Haraldur hafði sakað fjölmiðlamennina um að bera ábyrgð á ólögmætri meingerð vegna umfjöllunar þeirra um efnahagsbrotadeild embættisins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar klukkan eitt í dag þar sem farið verður yfir málefni lögreglunnar.