Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hápunktur blómatíma teiknimyndanna

Mynd: RÚV/Disney / RÚV/Disney

Hápunktur blómatíma teiknimyndanna

11.01.2020 - 11:03

Höfundar

„Maður fattaði strax að þarna var eitthvað mjög sérstakt á ferðinni,“ segir Felix Bergsson um teiknimyndina Konung ljónanna. Myndin verður sýnd í Bíóást á RÚV en Felix talsetti aðalpersónu myndarinnar á sínum tíma.

Felix Bergsson leikari og dagskrárgerðarmaður sá Konung ljónanna fyrst þegar hann var fenginn til að talsetja aðalpersónu myndarinnar, Simba. „Það er oft þannig að þegar maður sér þessar talsetningarútgáfur þá passa þeir að maður fái ekki alla útgáfuna eins og hún verður síðan á stóra skjánum,“ segir Felix, sem sá samt um leið að þarna var mjög sérstök mynd á ferðinni. „Hún reyndist síðan vera einhver magnaðasta og á þeim tíma besta teiknimynd sem hafði nokkurn tímann verið gerð.“

Konungur ljónanna var frumsýnd árið 1994. Myndin segir frá Simba, fjörugum ljónsunga sem hlakkar til að taka við af föður sínum sem konungur dýranna þegar hann verður stór. Svikull föðurbróðir hans, Skari, hefur þó sín eigin áform sem ógna friðsælu ríkinu. 

„Það hafði mest áhrif á mig að fara með syni mínum á þessa mynd og sjá hversu mikil áhrif þetta hafði á börnin,“ segir Felix. „Maður sá hvað svona listaverk gat haft sterk og mikil áhrif á börnin.“

Myndin ber glögglega þess merki að vandað var til verka í hvívetna. Talsetningin var þar ekki undanskilin. „Maður hafði aldrei séð annað eins. Í íslensku talsetningunni tókst okkur mjög að fylgja því, við vorum þó ég segi sjálfur frá mjög góð á þessum tíma og við gerðum þetta ákaflega vel og vönduðum okkur mikið.“ Auk Felix töluðu til að mynda inn á myndina leikarar eins og Laddi, Karl Ágúst Úlfsson, Jóhann Sigurðarson og Steinunn Ólína. „Þau fengu þarna tækifæri til þess að leika þetta – ekki bara herma eftir erlendum röddum. Það gerði þetta ofboðslega sterkt,“ segir Felix og hvetur alla til að fylgjast sérstaklega með talsetningunni þegar horft er á myndina.

Í vetur sýnir RÚV vel valdar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni. Að þessu sinni er það Disney-myndin Konungur ljónanna, eða Lion King. Myndin er sýnd með íslensku tali á RÚV laugardaginn 11. janúar klukkan 20.10 og sýnd á sama tíma á RÚV 2 með ensku tali.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hasarmynd með hjarta og góðum skylmingaatriðum

Kvikmyndir

„Fólk gerir ekki ráð fyrir að hún sé hættuleg“

Kvikmyndir

Einstaklega vel leikin mynd um áráttu-þráhyggjuröskun

Kvikmyndir

Tíminn fer mjúkum höndum um Nútíma Chaplins