Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hápólitískt lán á miðaldamyndlist

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Hápólitískt lán á miðaldamyndlist

18.01.2018 - 08:30

Höfundar

Í dag hefst heimsókn franska forsetans Emmanuels Macron til Bretlands. Eitt af því sem mun bera á góma eru fyrirhuguð lán Frakka á Bayeux-reflinum svokallaða, hátt í þúsund ára gömlu listaverki sem lýsir orustunni við Hastings, formála hennar og eftirmála.

Fundur á tímum pólitísks skjálfta

Macron forseti heldur nú til fundar yfir Ermasundið til að hitta Theresu May, en fundurinn þykir mikilvægur fyrir breska forsætisráðherrann sem vill styrkja tengslin við Frakkland nú í miðju Brexit-ævintýrinu.

Eins og oft er með svona fundi þá eru embættismennirnir búnir að vera tala saman í lengri tíma og ákveða hitt og þetta sem á að ræða og leiða til lykta á fundi stjórnmálamannanna. Og eitt af því þykir marka tímamót í menningarsamskiptum landanna því að nú hefur verið ákveðið að Frakkar, með samþykki sjálfs forsetans, komi til með að lána eitt sitt dýrasta hnoss á sýningu norðan við sundið. Það er sjálfur Bayeux refillinn sem nú fer úr landi í fyrsta sinn í 950 ár!

Áróður í myndasögu 

Refillinn sem kenndur er við smábæinn Bayeux í Normandí er eins konar pólitísk myndasaga sem greinir frá atburðum í aðdraganda orustunnar við Hastings árið 1066. Refillinn er engin smá smíð (70 metra langur og 50 cm á hæð) og þykir eitt mesta listaverk sem miðalda. Hann er líklega saumaður í nunnuklaustri í Bretlandi, en það er ekki alveg óumdeilt.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia

Áróðursgildið er mikið því að þarna tala sigurvegararnir, Normanar, sem lögðu undir sig Bretland eftir orustuna miklu.

Öryggi vefnaðarins tryggt

Lánið nýtist Theresu May við að sýna fram á að áfram verði tengslin við meginlandið góð en embættismenn menningarmála hafa tekið sér góðan tíma í að ræða lánið sem reyndar mun ekki gerast einn tveir og þrír. Talsmaður forsetans í Élysée-höll hefur látið hafa eftir sér að umfangsmiklar viðgerðir og forvarsla þurfi að fara fram á gripnum til að öryggi hans við flutningana veri tryggt. Líklegt er að fimm ár a.m.k. líði þar til blásið verði sýningar á gripnum í Bretlandi.

epa06384884 French President Emmanuel Macron (L) greets British Prime Minister Theresa May (R), as she arrives at the Elysee Palace for a lunch as part of the One Planet Summit held in Paris, France, 12 December 2017.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: EPA
Emmanuel Macron og Theresa May.

The Guardian sem fjallar um málið greinir frá því að slíkt lán hafi verið rætt áður, til dæmis þegar Elísabet drottning var krýnd árið 1953 og eins árið 1966 þegar 900 ár voru liðin frá Hastingsorustunni. Refillinn er sýndur í safni nærri smábænum sem hann er kenndur við en hann hefur tvisvar verið sýndur í París og það hverjir stóðu fyrir því sýnir ágætlega pólitískt mikilvægi hans. Það var fyrst árið 1803 að Napóleon stóð fyrir því og síðan árið 1945 eftir að Þjóðverjarhöfðu lagt undir sig borgina þá færðu þeir refilinn til Parísar og komu honum upp í Louvre safninu. En nú á ferðalagið semsagt að verða ívið lengra og því þarf að undirbúa allt af kostgæfni.