Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hanna forrit til að rekja ferðir fólks í faraldrinum

24.03.2020 - 19:29
young girl with backpack, tourist traveler on background panoramic view of the mountain. Mock up for text message. Female hands using smartphone
 Mynd: Porapak Apichodilok - Pexels
Almannavarnir og Landlæknisembættið vinna nú að því að koma í gagnið forriti sem gerir þeim kleift að kortleggja samskipti fólks sem smitast af COVID-19. Vonir standa til að hægt verði að taka forritið í notkun í næstu viku. Almenningur verður beðinn um að setja forritið upp í síma sínum svo hægt sé að kanna hvaða einstaklinga fólk hefur umgengist ef það smitast.

Almenningur fær á næstunni skilaboð í síma sína þar sem fólk er beðið um að setja forritið upp í símanum. Forritið safnar upplýsingum um þá síma sem eru í grenndinni. Þannig er hægt að komast að því hverja fólk hefur verið í samskiptum við áður en það greindist með COVID-19. Fjallað var um forritið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Vilja flýta fyrir smitrakningu

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að markmiðið með forritinu sé fyrst og fremst að flýta fyrir vinnu við smitrakningu. Nú er að störfum teymi sem talar við smitaða, reynir að rekja ferðir þeirra og samskipti við annað fólk. Þetta hefur meðal annars gagnast til að setja fólk í sóttkví sem kann að vera smitað og þannig koma í veg fyrir að það smiti aðra. Smitrakningin hefur falið í sér mikla vinnu og byggir á því að fólk muni hverja það hefur verið í samskiptum við. 

Víðir segir að nýja forritið komi ekki í staðinn fyrir samtöl smitrakningateymisins við smitaða. „Þetta þarf að fara saman, samtalið og forritið.“ Hann nefnir sem dæmi að ef fólk leggur bíl sínum í tíu mínútur við hlið annars bíls gæti forritið talið að bílstjórar beggja bíla séu í samskiptum þótt það þurfi ekki að vera raunin. Þess vegna þurfi smitrakningateymið áfram að ræða við smitaða og fara yfir gögnin úr forritinu.

Gagnagrunnur í eigu landlæknisembættisins

Aðspurður um hvernig slík upplýsingaöflun varði persónuverndarlög segir Víðir að forritið geri ráð fyrir tvöföldu samþykki símnotenda. Þannig þurfti fólk tvisvar að gefa leyfi fyrir upplýsingasöfnun og úrvinnslu þegar það setur upp forritið. 

„Þetta er gagnagrunnur sem verður í eigu landlæknisembættisins. Um hann gilda sömu reglur og um aðra gagnagrunna á heilbrigðissviði. Gögnunum verður síðan eytt þegar búið er að rekja smitið,“ segir Víðir. 

Vilja kortleggja sem flesta þeirra sem eru í smithættu

Hingað til hefur rúmlega helmingur þeirra sem greinst hafa með COVID-19 veikina verið í sóttkví áður en viðkomandi greindist með smit. Víðir segir að markmiðið með nýja forritinu sé að svo verði áfram. Þeim mun betur sem tekst upp við að kortleggja samskipti smitaðra við aðra þeim mun líklegra er að hægt sé að koma í veg fyrir að aðrir beri smitið áfram.