Hanna Birna ætlar ekki á fund þingnefndar

16.03.2015 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hyggst ekki þiggja boð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um að mæta á fund nefndarinnar til að ræða um lekamálið. Í bréfi sem Hanna Birna sendi formanni nefndarinnar í dag kemur fram að hún setjist á þing eftir miðjan apríl.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sendi Hönnu Birnu bréf 22. janúar sl. þar sem kemur fram að frá því að hún kom fyrir nefndina í desember 2013 hafi mörgum þingmönnum þótt fullyrðingar hennar um lekamálið í þingsal verið mótsagnakenndar eða ekki geta staðist. Innan nefndarinnar hafi komið fram óskir um að Hanna Birna kæmi á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sýn sinni á málið og svara spurningum nefndarmanna um framgöngu sína. 12. mars ítrekaði svo Ögmundur boðið með bréfi. Þar segir að þar sem ekkert svar hafi borist sé erindið ítrekað og óskað eftir því að nefndinni berist svar fyrir næsta fund hennar sem er á morgun. 

Hanna Birna sendi Ögmundi bréf í dag sem fréttastofa RÚV hefur undir höndum. Þar segir Hanna Birna að þar sem hún komi ekki til þingstarfa fyrr en eftir miðjan apríl, vísi hún til þeirra upplýsinga og gagna sem þegar liggi fyrir í lekamálinu. Rannsókn og saksókn málsins hafi lokið með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir fyrrum aðstoðarmanni hennar í nóvember sl. „Líkt og ítrekað hefur komið fram var ég ekki upplýst um þá aðkomu hans fyrr en nokkrum dögum áður. Í það ár sem málið var til umræðu reyndi ég alltaf að svara spurningum um það í samræmi við þá vitneskju sem ég hafði á hverjum tíma. Það á jafnt við um svör mín við fyrirspurnum þingmanna í þingsal og til nefndarmanna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar ég mætti á fund nefndarinnar,“ segir Hanna Birna í bréfinu.

Þá segir Hanna Birna að umboðsmaður Alþingis hafi lokið sinni athugun á málinu með áliti 22. janúar sl. „Þar sem ég gegni ekki lengur embætti innanríkisráðherra, hef áður svarað umboðsmanni Alþingis í fjórum formlegum bréfum og er sem stendur í leyfi frá þingstörfum, þá vísa ég til ofangreinds og óska nefndinni velfarnaðar í sínum störfum en óska jafnframt ekki eftir að koma frekari upplýsingum að vegna málsins,“ segir Hanna Birna í bréfinu sem hún sendi formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi