Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Hann væri bara dáinn“

03.04.2018 - 19:41
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Minnstu munaði að þriggja ára gamall drengur hengdist í gardínusnúru á heimili sínu á föstudaginn langa. Faðir hans náði að bjarga honum á síðustu stundu. Hann segir að tilviljun hafi ráðið því að sonur hans er enn á lífi. Forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna segir að á hverju ári verði að meðaltali tvö slys með þessum hætti hér á landi.

Eftir hádegi á föstudaginn langa voru feðgarnir Baldur Guðmundsson og hinn þriggja ára Hjörvar Kári heima hjá sér í Kópavoginum. Hjörvar Kári var að horfa á Hvolpasveit í sjónvarpinu og faðir hans sat í sófa á öðrum stað í íbúðinni, þar sem hann sá ekki son sinn.

„Allt í einu heyri ég skrítið hljóð sem maður á ekki að venjast. Ég heyri eitthvað svona kokhljóð eða hljóð sem barn gefur venjulega ekki frá sér. Þannig að ég stekk á fætur,“ segir Baldur. Hann sér þá að Hjörvar Kári hefur vafið gardínusnúru um hálsinn á sér, og er að kafna. „Og kem að honum þar sem hann er svona, stendur í dyragættinni á þessari svalahurð. Og ég stekk og næ að grípa undir hann. Það mátti ekki miklu muna.“

Og stóð hann bara á táberginu?

„Hann náði því ekki. Ég sá bara á þessari sekúndu sem ég hafði til þess að virða þessar aðstæður fyrir mér, að þá náði hann kannski með sitthvora stóru tána niður.“

Og þú grípur hann og hvað gerist næst?

„Ég bara lyfti undir hann, set hann niður í gluggakistuna, hann er þögull í smá stund, en ég sé alveg að það er í lagi með hann,  liturinn fjarar út á andlitinu og ég sé að hann er rauður allan hringinn. En svo jafnar hann sig á hálfri mínútu og heldur áfram að leika sér.“

Annað tækifæri

Baldur segir að tilviljun ein hafi ráðið því að ekki fór verr.

„Hann var að horfa á Hvolpasveit í sjónvarpinu, þannig að sjónvarpið var í gangi, ég var inni í eldhúsi að ganga frá, og uppþvottavélin hafði nýlega verið í gangi. En á þessari stundu er algjör þögn í húsinu. Þátturinn er búinn, uppþvottavélin er hætt og eldri strákurinn minn er nýfarinn út með vinum sínum. Og þetta var það lágt hljóð að ég hefði ekki heyrt það ef eitthvað af þessu hefði ekki átt við. Ef ég hefði verið annars staðar í húsinu, inni í svefnherbergi, inni á baðherbergi, eða einhvers staðar annars staðar, þá væri hann ekki með okkur í dag.“

Þetta hefði getað farið miklu verr?

„Hann væri bara dáinn,“ segir Baldur.

Fjölskyldan hefur farið yfir öryggismálin á heimilinu síðan á föstudaginn. „Við klipptum á allar gardínur. Þetta var mikið lengri lykkja. Hún náði alveg hingað niður en ég klippti stóran bút úr þannig að nú á ekki að geta farið illa hér.“

Hefur Hjörvar Kári rætt þetta mikið síðan þetta gerðist?

„Nei ekki af fyrra bragði. En við erum búin að fara yfir þetta fjölskyldan. Og við vorum að segja hvað við værum heppin að haf hann ennþá hjá okkur. Og þá sagði hann „pabbi, pabbi, ég er ekki dáinn“. En maður veit ekki hvaða merkingu hann leggur í það. En maður er bara sjálfur í áfalli. Það mátti það litlu muna að ég lít á þetta sem annað tækifæri fyrir okkur að vera saman,“ segir Baldur.

Mynd: RÚV / RÚV
Rætt var við Herdísi L. Storgaard forstöðumann Miðstöðvar slysavarna barna í fréttatímanum.
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV