Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hann er kominn heim

Mynd: RÚV / RÚV

Hann er kominn heim

09.02.2020 - 14:11

Höfundar

Sátt/Bury the Moon er þriðja breiðskífa Ásgeirs. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem var plata vikunnar á Rás 2.

Dýrð í dauðaþögn, platan sem kom Ásgeiri Trausta (nú Ásgeiri) á kortið, kom að því er virtist úr tómarúmi árið 2013. Tónlistin var hins vegar með þeim hætti að allir og amma þeirra tengdu og seldist platan í bílförmum, á skala sem síðast hafði verið greinanlegur á níunda áratugnum er Bubbi dældi út sínum meistarastykkjum. Í kjölfarið óx vegur Ásgeirs hratt, ekki síst á erlendri grundu þar sem hann keyrir nú farsælan feril. Afterglow (2017) bar með sér rafskotnari hljóm en frumburðurinn, sem var lífrænni, en höfundareinkennin skýr engu að síður. Nokk hetjuleg eftirfylgni við fyrstu plötuna verður að segjast, þar sem vel var sveigt frá endurtekningunni.

Ákveðið öryggi 

Pressan í kringum plötu tvö er vel þekkt fyrirbæri í poppheimum og Ásgeir leysti það mál með glans. Er það mögulega ástæðan fyrir því að þessi plata ber með sér ákveðið öryggi, ákveðna vissu sem liggur yfir og undir? Ákveðna „sátt“ með öðrum orðum? Maður heyrir í fyrstu plötunni hér, rafheimur þeirrar síðustu er líka nýttur upp að vissu marki en þessi þriðja plata er fyrst og síðast alls ólík þessum tveimur. Það er búið að skafa ungæðisháttinn sem greina mátti á fyrstu plötunni alveg frá, sveimið sem lá stundum of mikið yfir síðasta verki er sett í skipulegri lagauppbyggingu og útkoman er sterkt höfundarverk listamanns sem er búinn að taka út sinn þroska að fullu.

Já, reisn og öryggi, rólyndi einhvern veginn og útpæld framsetning. Platan enda samin í sveit, fjarri áreitinu. Plötutitillinn kjarnar afstöðuna alla, sem og lagatitlar eins og „Glæður“ „Bernskan“ og „Heimþrá“. Textar eru yndislegir, bera með sér saklausar, hreinar endurminningar og sókn eftir einfaldari og meira gefandi tímum. Ásgeir virðist hafa náð að staldra við í lagasamningar-útlegðinni og fangað myndir og lýsingar sem snúast allar um það sem skiptir á endanum máli. „Bernskan“ er gott dæmi um það sem einkennir plötuna, fer rólega af stað, leitt af falsettu Ásgeirs en um miðbikið kemur voldugt brass inn, eins og til að undirstrika boðskapinn. „Heimþrá“ situr á svipuðum stað, falleg stemma og dásamlega sungin. Útsetningin einkar hæfandi, rafskruð og hljóðgervlar styðja glæsilega við alla framvindu.

Fallegar smíðar

Önnur lög eru meira og minna í þessum fasa. Þetta eru fallegar smíðar, umlykja hlustandann, leyfa honum að gleyma sér. Strengir, blástur og forritun, allt í fallegu jafnvægi. Þessi plata er um margt seintekin, hún æpir ekki á þig, hún ræðir við þig rólega, fær þig til að staldra við, hugsa og njóta. Eins bjánalega og það kann að hljóma hefur Ásgeir aldrei verið meiri „Ásgeir“ en einmitt hér. Hann er kominn heim.

Tengdar fréttir

Tónlist

Órafmagnaður Ásgeir Trausti í Græna hattinum

Tónlist

Ásgeir Trausti í uppáhaldi hjá Robin Bengtsson